22/12/2024

Rokkandi sveitarstjóri vekur athygli fjölmiðla

Á vefritinu visir.is er fjallað um karókíkeppni vinnustaða á Ströndum og það vekur sérstaka athygli að sveitarstjóri Strandabyggðar er á meðal þátttakanda. „Ég er að taka þátt í annað sinn," segir Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar, en í kvöld fer fram undankeppnin í karókí vinnustaða á Ströndum á skemmtistaðnum Bragganum. „Við héldum þetta í fyrsta skipti á Café Riis í fyrra en þá sprengdi staðurinn utan af sér á undankvöldinu og við fluttum úrslitakvöldið á Braggann. Núna verða bæði kvöldin þar enda mikil stemning fyrir þessu," segir Ásdís sem bregður sér í líki hins veiklulega Thom Yorke úr Radiohead og syngur lagið Creep, segir á visir.is.

„Þetta er verðugt verkefni og það er gaman að taka eitthvað sem fólk býst ekki við," segir hún og hlær.

Ásdís segir að mikill metnaður sé hjá Strandamönnum fyrir þessari keppni enda hafi þegar þrettán manns skráð sig til leiks, þar á meðal Sigurður Atlason frá Strandagaldri á Ströndum en hann ætlar að töfra fram lagið Man I feel like a Women eftir Shaniu Twain. „Dómnefnd velur síðan sjö sem keppa á úrslitakvöldinu eftir hálfan mánuð en áhorfendur fá að velja einn," segir sveitastjórinn sem komst í úrslit í fyrra með laginu Heartbreak Tonight með Eagles. Hún söng síðan Simply the Best með Tinu Turner og New York, New York með Frank Sinatra á úrslitakvöldinu en varð að lúta í lægra haldi fyrir Stefán Jónssyni. „Þetta er bara alveg rosalega skemmtilegt og það er mikil tilhlökkun fyrir keppninni meðal íbúanna."