03/05/2024

Rjúpurnar hertaka Hólmavík

Síðustu daga hefur töluvert af rjúpu verið á vappi um Hólmavík og sett svip á bæinn. Leikur grunur á að þær hyggist setjast að í þorpinu, að minnsta kosti þangað til veiðitímabilinu líkur ef það verður þá nokkuð um rjúpnaveiði að ræða þetta haustið. Nokkrar ungrjúpur voru festar á minniskubb myndavélarinnar þar sem þær voru á leiðinni í Grunnskólann fyrir skömmu og einnig dvöldu allmargar fullvaxnar rjúpur á tjaldsvæðinu í nótt og voru svo á leiðinni í sund í morgun.

Rjúpan er annars hænsnfugl af orraætt, staðfugl sem verpir á heimskautasvæðum og norðlægum slóðum í Evrasíu og Norður-Ameríku (einnig á Grænlandi). Rjúpan er sérstök meðal fugla að því leyti að hún skiptir um hluta fjaðurhams þrisvar á ári og breytir um lit eftir árstímum. Á sumrin og haustin er rjúpan brúnleit með svörtum flikrum, en í vetrarbúningi eru bæði kynin allhvít með svart stél. Í júlí fella rjúpur flugfjaðrir og stélfjaðrir.

Karrinn helgar sér óðal í lok apríl og kvenfuglinn kemur tveimur til þremur vikum síðar. Rjúpan verpir að jafnaði 12 eggjum. Útungunartíminn er um 3 vikur og ungarnir yfirgefa hreiðrið strax. Þeir fylgja móður sinni eftir í 6-8 vikur. Rjúpan er jurtaæta, hún lifir á rjúpnalaufi (blöðum holtasóleyjar), kornsúrulaukum, krækiberjum, aðalbláberjalyngi og berjum, birki, grasvíði og fleiri jurtum.

bottom

Rjúpurnar tilbúnar að hefja skólagöngu á Hólmavík – myndin er tekin rétt áður en þær röðuðu sér upp í einfalda röð og Victor skólastjóri opnaði fyrir þeim  – ljósm. Sigurður Marinó

natturumyndir/580-skolarjupur2.jpg

Þessar rjúpur gistu hins vegar á tjaldsvæðinu og voru á leiðinni í sund í morgun með miklu háreysti og ropi – ljósm. Jón Jónsson.