22/12/2024

Rjúpnaveiðar leyfðar í haust

Í dag kynnti Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra reglugerð um rjúpnaveiðar haustið 2005. Til að draga úr sókn í rjúpuna þegar veiðar verða leyfðar aftur nú í haust eftir friðun, verður sett sölubann á veiðibráð og rjúpnaafurðir. Þá verður veiðitímabilið stytt og er frá 15. október til 30. nóvember, en áður voru veiðar leyfðar til 22. desember. Þá er ætlunin að ráðst í átak til að hvetja veiðimenn til að veiða í hófi. Í reglugerðinni er ítrekað bann við notkun vélsleða, fjórhjóla og annarra torfærutækja við rjúpnaveiðar. Rétt er að minna veiðimenn á Ströndum á að heiðalönd hér um slóðir eru öll í einkaeign og leyfi landeigenda þarf til veiðanna.