22/12/2024

Reglur um byggðakvóta í Strandabyggð og Kaldrananeshreppi

Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar á dögunum var tekið fyrir erindi frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2009-2010 þar sem greint var frá því að 100 þorskígildistonn koma í hlut Strandabyggðar. Lagði varaoddviti til að skipting byggðakvótans verði 75% samkvæmt lönduðum afla, en 25% verði skipt jafnt. Einnig verði sótt um undanþágu frá þeirri reglu að við úthlutun skuli ekkert fiskiskip hljóta meira en 15 þorskígildislestir og frá reglu um löndun til vinnslu.

Jón Stefánsson gerði breytingatillögu þess efnis að skipting verði 100% samkvæmt lönduðum afla og að útgerðum verði gert skylt að leigja til sín jafn mikinn kvóta og þeir fá í úthlutaðan byggðakvóta. Var breytingartillagan borin undir atkvæði og var hún felld með þremur greiddum atkvæðum en einn greiddi atkvæði með tillögunni. Þá var tillaga varaoddvita borin undir atkvæði og var hún samþykkt með þremur greiddum atkvæðum en einn greiddi atkvæði á móti. Einn vék af fundi við afgreiðsluna.

Þá kom fram á fréttavefnum bb.is að sveitarstjórn Kaldrananeshrepps hefur gert tillögu um sérstök skilyrði við úthlutun á byggðakvóta og lagt til við sjávarútvegsráðuneytið að til viðbótar við hin almennu skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa komi liður sem segir: „Úthluta skal í hlutfalli við landaðan afla til þeirra báta sem landað hafa afla sínum til vinnslu á Drangsnesi frá 1. september 2009 til 31. mars 2010. Komi samkvæmt þeirri skiptingu meira en 15 tonn í hlut hvers fiskiskips skal vikið frá takmörkunum um hámarksbyggðakvóta á hvert fiskiskip skv. 4 gr. reglugerðarinnar.“

Fram kemur í rökstuðningi sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps að hún telur að með þessu ákvæði sé verið að styrkja þá aðila sem hafa þar heilsársbúsetu og hvetja útgerðaraðila til að gera út allt árið. „Einnig er með þessu komið til móts við þá sem eru að leigja til sín kvóta í stórum stíl og skapa með því aukna atvinnu og hagsæld í sveitarfélaginu,“ segir í tillögunni.