19/04/2024

Refaskyttur í Strandabyggð ósáttar

Refur á HornströndumÁ síðasta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar var tekið fyrir erindi frá grenjaskyttum í sveitarfélaginu þar sem þess var krafist að greitt yrði fyrir vetrarveiði veturinn 2005-2006. Eins var því mótmælt að sett hefur verið 10 skotta þak á hvern veiðimann vegna vetrarveiði 2006-2007 og loks er dregin í efa heimild sveitarstjórnar að hafa hætt greiðslu fyrir vetrarveiði á sínum tíma. Niðurstaða sveitarstjórnar var að reglur yrðu óbreyttar þar til nefnd á vegum Fjórðungssambandsins hefur skilað áliti og tillögum fyrir Vestfirði í heild.

Fram kemur í fundargerðinni að samþykkt hafi verið samhljóða á fundi hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps þann 24. febrúar 2004 að hætta greiðslu skotverðlauna fyrir ref og mink að svo stöddu.

Loks var sveitarstjóra falið að skrifa erindi til Umhverfisráðuneytis þar sem farið verði fram á hærri greiðslur til sveitarfélagsins vegna nálægðar þess við friðlandið á Hornströndum.