22/12/2024

Prófkjör hjá Samfylkingunni

Framboðsfrestur í prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir næstu Alþingiskosningar rennur út í dag. Vefnum strandir.saudfjarsetur.is hafa borist tvær fréttatilkynningar frá frambjóðendum sem eru Bryndís Friðgeirsdóttir á Ísafirði og Helga Vala Helgadóttir í Bolungarvík sem báðar bjóða sig fram í 2.-3. sæti listans. Aðrir sem ritstjórn hefur vitneskju um að hafi gefið kost á sér eru Anna Kristín Gunnarsdóttir þingmaður á Sauðárkróki og séra Karl V. Matthíasson sem bæði gefa kost á sér í 1.-2. sæti. Einnig hefur Guðbjartur Hannesson á Akranesi gefið kost á sér í 1.-2. sæti og nöfn þeirra Ragnhildar Sveinsdóttur, Sigurðar Péturssonar á Ísafirði og Sveins Kristinssonar (frá Dröngum) á Akranesi hafa líka verið nefnd.

Auk þeirra hefur Benedikt Bjarnason á Suðureyri lýst yfir framboði og gefur kost á sér í 3.-4. sæti. Jóhann Ársælsson á Akranesi sem leiddi listann í síðustu kosningum hefur hins vegar ákveðið að gefa ekki kost á sér aftur.

Þeir sem vilja gefa kost á sér geta enn haft samband við formann kjörnefndar, Eggert Herbertsson í síma 860-7910 eða eggertherbertsson@hotmail.com. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur Strandamenn hvar í flokki sem þeir standa til að taka þátt í stjórnmálabaráttunni á landsvísu.

Fréttatilkynning Helgu Völu Helgadóttur

"Ég hef undanfarin ár starfað á vettvangi fjölmiðla, fyrst á Bylgjunni og síðar hjá Ríkisútvarpinu, Talstöðinni og NFS. Ég er menntaður leikari og hef starfað við uppfærslur frá útskrift 1998 bæði sem leikari og leikstjóri.

Brennandi áhugi á þjóðfélagsmálum og vilji til að hafa áhrif á umhverfið er ástæða þess að ég býð mig fram. Ég trúi því að það sé eftirspurn eftir konu með mína reynslu og hæfileika á Alþingi Íslendinga.  Ég hef ekki tekið virkan þátt í pólitísku starfi með Samfylkingunni, enda fer það illa saman við starf fjölmiðlakonunnar, en nú er lag, verkefnin framundan eru ærin og kraftar mínir munu nýtast vel til þeirra. 

Þau mál sem mér eru ofarlega í huga eru málefni fjölskyldunnar, í hinu stóra samhengi. Það er ekki líðandi að grunnþjónustu sé ekki að fá nema á höfuðborgarsvæðinu og það verður að laga. Allt of lengi hefur landsbyggðin sætt sig við annars flokks þjónustu, með þeim rökum að hagkvæmnin miðist við stærðina og því borgi sig ekki að veita hana á landsbyggðini. Þetta hefur orðið til þess að íbúar landsbyggðarinnar minnka kröfurnar, en nú er mál að linni. Ríkisstjórnin hefur rétt plástur á ákveðin svæði, en plásturinn sem slíkur læknar ekki. Við þurfum fyrirbyggjandi aðgerðir, til að fólk fái áfram að búa í sinni heimabyggð. Menntun, heilbriðgðisþjónusta, öldrunarþjónusta og uppbygging atvinnulífs á öllum stöðum á landinu er krafa númer eitt. Það eru helstu baráttumálin – og ég ætla ekki að láta mitt eftir liggja!

Ég er búsett í Bolungarvík, gift Grími Atlasyni, bæjarstjóra Bolungarvíkur, og saman eigum við 4 börn."

Fréttatilkynning Bryndísar Friðgeirsdóttur

Bryndís Friðgeirsdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2.-3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í NV kjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.

Bryndís sem býr með fjölskyldu sinni á Ísafirði hefur verið bæjarfulltrúi síðastliðin 15 ár, fyrst fyrir Ísafjarðarkaupstað og síðar Ísafjarðarbæ eftir sameiningu sveitarfélaga á svæðinu. Hún hefur tvisvar tekið sæti sem varamaður á alþingi.

Bryndís er kennari að mennt og starfaði í 15 ár sem grunnskólakennari á Ísafirði en hefur gegnt stöðu svæðisfulltrúa Rauða krossins á Vestfjörðum síðastliðin 9 ár.