28/03/2024

Fámennt en góðmennt í Kirkjubólsrétt

Líklega hefur sjaldan verið færra fé og fólk í Kirkjubólsrétt en í dag, þegar seinni rétt fór þar fram. Fimm kindur komu til réttar og jafnmargir voru viðstaddir til að draga þær í dilka. Jón Jónsson réttarstjóri í Kirkjubólsrétt segir að þetta sé ekki nema von, yfirleitt sé gáfulegra að leita fyrst og rétta svo: "Ég lagði til fyrir nokkru að réttarstörfunum yrði frestað til sunnudagsins, en það varð eitthvað fátt um svör. Til að standa mig í stykkinu sem réttarstjóri var því ekki um annað að ræða en draga þessar fimm kindur sem voru í réttargirðingunni klukkan 14:00 þegar réttin átti að hefjast samkvæmt tilskipuninni."

Í réttinni var ein tvílemba úr Bitru með lömbin sín, eitt lamb úr Kollafirði og ein ær úr Tungusveit. Réttarstörfin tóku 10 mínútur og voru tveir gamlir Kollfirðingar á staðnum og tveir Hólmvíkingar, fyrir utan ljósmyndarann frá Kirkjubóli.

Líf og fjör í réttunum – ljósm. Dagrún Ósk Jónsdóttir