14/10/2024

Pottasleikir heimsótti Lækjarbrekku

Pottasleikir sem gengur líka undir nafninu Pottaskefill að gömlum sið heimsótti m.a. börnin á Lækjarbrekku á Hólmavík í morgun og kom færandi hendi. Troðfullur pokinn sem sveinninn gamli burðaðist með ofan úr fjöllunum var farinn að síga heldur í svo hann var ansi andstuttur meðan hann dansaði í kringum jólatréð áður en hann gaf öllum börnunum á leikskólanum sinn hvorn pakkann. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is hitti sveinka þegar hann gekk út á götu og innti hann eftir því hvað hefði verið í öllum þessum pökkum:

"Það má ég ekki segja," sagði Pottasleikir "því jólapakka á ekki að opna fyrr en á jólunum og ef ég hef heyrt rétt, sem undir venjulegum kringumstæðum gerist ekki, þá lesa þessi yndislegu börn á leikskólanum strandir.saudfjarsetur.is af mikilli áfergju og þá verður ekkert gaman fyrir þau að taka upp pakkana. Svo ég segi þér það ekki, þú þarna forvitnishrúga".

Börnin skemmtu sér vel í heimsókn jólasveinsins og voru ekki vitund hrædd þegar leið á heimsóknina. Svo fylgdust þau með sveinka þar sem hann prófaði leiktækin móður og másandi, afturábak og áfram í allskyns skringilegum stellingum. Það er hægt að fræðast ögn meira um Pottasleiki Grýlu- og Leppalúðason á þessari slóð á strandir.saudfjarsetur.is og hlusta á jólasveinavísuna um hann.