24/04/2024

Þriðji í aðventutippi

Tippleikur strandir.saudfjarsetur.is heldur áfram nú á morgun eins og undanfarnar 16 helgar. Hingað til hafa tíu aðilar spreytt sig í tippleiknum og oftast verið afar mjótt á munum í úrslitum viðureignanna. Í þessari umferð eigast við þeir Jón Eðvald Halldórsson frá Drangsnesi og Kristján Sigurðsson á Hólmavík en þeir gerðu jafntefli um síðustu helgi; 4-4. Spár þeirra eru afar svipaðar því aðeins fjórir leikir skilja í milli. Það verður því jöfn barátta á morgun en kapparnir eru afar sigurvissir svo ekki sé fastar að orði kveðið – Nonni lofar því að fá að lágmarki 10 rétta og Kristján segir að jólin séu "sinn tími" og sigurinn því innan seilingar. Hvað síðan gerist kemur í ljós á morgun, en þangað til er hægt að skemmta sér við að skoða spár og fræðilegar umsagnir tippgarpanna:

1. West Ham – Newcastle

Nonni: Newcastle lagði nallana um síðustu helgi í það miklum hörkuleik að Wenger klagaði í fjölmiðlana. Ég er á því að leikmenn Newcastle verði áfram með olnbogana á lofti og salli Hamrana niður hægri vinstri. Tákn: 2.

Kristján: Newcastle er á góðu skriði nú með Owen í formi. Þeir taka þetta nokkuð létt. Þó er ég ekki hrifinn af Souness sem framkvæmdastjóra, ég man þegar hann eyðilagði ferilinn hjá Pétri Ormslev í langan tíma með fólskulegu broti í landsleik. Tákn: 2.

+++
 
2. Fulham – Blackburn

Nonni: Fulham kemst í hann krappann í fyrri hálfleik en kínverska jurtateið í leikhlé gerir gæfumuninn. Tákn: 1.

Kristján: Fulham þarf á því að halda að sigra. Vonandi fara Fulham-menn að nota Heiðar Helguson og þá fer þetta að rúlla hjá þeim. Tákn: 1.

+++
 
3. Everton – Bolton

Nonni: Það er algjört grundvallaratriði hjá mér að tippa ekki á Everton sigur en því er ekki að neita að gengið hjá þeim hefur skánað töluvert upp á síðkastið. Leikmenn Bolton geta alveg verið skeinuhættir á góðum degi og þeir ná að hanga á jafnteflinu. Tákn: X.
 
Kristján: Bolton er í finu formi þessa dagana, komnir áfram í Evrópukeppninni og hvaðeina. Tákn: 2.

+++

4. Wigan – Charlton

Nonni: Þetta er töluvert snúinn leikur sem getur farið á báða vegu. Ég er þó frekar á því að brothætt vörn Charlton nái ekki að halda Henri Camara í skefjum. Frábær leikmaður þar á ferð  í stórskemmtilegu liði! Tákn: 1.
 
Kristján: Þarna mætast tvö baráttulið og því er rétt að veðja á jafntefli. Fótboltinn sem þau spila kannski ekki alltaf skemmtilegur!!! En þó. Tákn: X.
+++

5. Portsmouth – W.B.A.

Nonni: Það er vonandi að Harry Redknapp nái að koma leikmönnum Portsmouth í jólaskapið. Ef það tekst ekki þá eru þeir komnir á beinu brautina niður í fyrstu deild. W.B.A. hafa aftur á móti ekki tapað fjórum leikjum í röð og stefna hraðbyri í að vera spútniklið deildarinnar. Tákn: 2.

Kristján: WBA átti fínan leik síðast og kom á óvart. Þeir halda áfram og landa sigri hér. Eða eins og frægur maður segir oft:  “Portsmouth á eftir að lúta í gras.”  Tákn: 2.

+++
 
6. Man. City – Birmingham

Nonni: Stóra liðið í Manchester borg býður upp á blússandi sóknarbolta um helgina. Robbie Fowler setur upp nasaplásturinn og bingbammbæ …boltinn syngur í sammaranum! Tákn: 1.

Kristján: Man. City girða sig í brók eftir afleitan leik síðast. Stuart Pearce viðurkenndi eftir síðasta leik að þeir hefðu bara verið lélegir og átt skilið að tapa. Gaman að heyra hjá framkvæmdastjóra að þetta hafi ekki verið dómurunum að kenna, eins og svo algengt er að heyra t.d. hjá landsliðsþjálfaranum okkar í handbolta. Það er kostulegt að heyra í þjálfurum sem láta svona því þeir byrja alltaf á að segja að þeir séu nú ekki vanir að kvarta yfir dómgæslunni en nú keyri um þverbak o.s.frv. Tákn: 1.

+++
 
7. Millwall – Reading

Nonni: Þetta er eini öruggi leikurinn á seðlinum þessa helgi. Auðveldur sigur hjá Íslendingunum í Reading. Tákn: 2.

Kristján: Reading rúllar þessu upp og vinnur stórt. Tákn: 2.

+++
 
8. Wolves – Leeds

Nonni: Jahh hvað skal segja, nú verð ég að setja allt mitt traust á pabba. Hann hefur ekki enn haft rangt fyrir sér enda með eindæmum getspár kallinn. Tákn: 2.
 
Kristján: Úlfarnir eru á skriði og stefna á að ná forni frægð. Nú hljóta þeir að vinna. Tákn: 1.

+++

9. Burnley – Watford

Nonni: Það er ekki hægt annað en að setja á þetta heimasigur þó að Watford séu fyrirfram sigurstranglegri. Tákn: 1.
 
Kristján: Burnley hefur betur. Tákn: 1.

+++

10. Luton – Stoke

Nonni: Ég verð að viðurkenna það að mér er virkilega í nöp við Stoke síðan Guðjón Þórðarsson var rekinn. Áfram Luton Town! Tákn: 1.
 
Kristján: Stoke er í tómu rugli eftir að Guðjón fór. Þeir tapa. Tákn: 1.

+++

11. Plymouth – Crystal Palace

Nonni: Mér fannst sárt að sjá á eftir Crystal Palace niður í fyrstu deildina og það væri gaman ef þeir myndu koma sér upp aftur. En þeir verða þá að vinna Plymouth um helgina ef það á að takast. Tákn: 2.

Kristján: C. Palace eða Kristalshöllinn fræga (frá heimssýningunni í London fyrir margt löngu) fer á kostum í þessum leik og sigrar. Tákn: 2.

+++
 
12. Norwich – Southampton

Nonni: Kristján og Siggi setja einn á þennan og ég ætla að gera það líka. Það er nú ekki annað hægt en að hrósa Sigga Orra fyrir að vera eini Norwich aðdáandinn á Íslandi (og líklega Frakklandi líka). Tákn: 1.
 
Kristján:  Eins og síðast er Norwich liðið hans Sigga Orra sem nú dvelur í París við góðan kost. Honum til heiðurs tel ég nokkuð ljóst að þeir hafi þetta. Tákn: 1.

+++

13. Sheff. Wed. – Ipswich

Nonni: Jæja. þá er það síðasti leikurinn á seðlinum. Ég ætla að setja jafntefli á þennan því ég er bara búinn að nota Xið einu sinni. Tákn: X
 
Kristján: Ipswich lék oft skemmtilega hér á árum áður og þeir hafa þennan leik á fornri frægð eins og Svíarnir hafa okkur alltaf í handboltanum af gömlum vana, og Þjóðverjar vinna svo oft þó þeir ættu í raun skilið að tapa. Tákn: 2.

+++

Nonni: Þetta var nú alveg sérlega lélegur árangur um síðustu helgi, allavega hvað mig varðar. Fjórir réttir er gjörsamlega fyrir neðan allar hellur!  Það getur vel verið að þetta sé standardinn hjá Kristjáni, en vonum nú ekki. Ég hef trú á því að við náum að rífa okkur hressilega upp úr þessu. Þessi skellur varð allavega til þess að ég hef lagt mikið á mig í að rýna í alls kyns tölfræði um öll félagslið á seðlinum (byrjaði á því strax á laugardagskvöldið). Og árangurinn úr talnarýninni má sjá hér að ofan, þetta getur ekki klikkað! Lágmark 10 leikir réttir um helgina!

Kristján: Þessi seðill er ekki síður erfiður en hinn. Fullt af leikjum og liðum sem ég veit ekkert um. Þó held ég að ég hafi veðjað til sigurs í þetta sinn og allt sé á uppleið. Enda ekki erfitt að bæta árangurinn frá því síðast.  Jólin eru minn tími og sigurinn er innan seilingar. Sennilega sem ég bara lag eins og mótherjinn leggur til ef ég vinn, gott væri þó að hann legði til textann, nú eða þá þú Addi – þá verður samvinnan í lagi.