22/12/2024

Orgelsöfnun á súpufundi á Café Riis

Hinir vikulegu súpufundir á Café Riis á Hólmavík í hádeginu á fimmtudögum halda áfram og þann 3. desember verður samfélagslegt verkefni í brennidepli: Söfnun fyrir nýju orgeli í Hólmavíkurkirkju. Það eru Viðar Guðmundsson organisti og Sólrún Jónsdóttir sóknarnefndarformaður sem segja frá söfnuninni og nýja orgelinu og jafnvel viðbúið að menn taki lagið í tilefni dagsins. Það verður jólabragur á Café Riis og innkoman rennur beint í orgelsjóðinn. Þá gefst fyrirtækjum og stofnunum kjörið tækifæri á hádegisfundinum til að koma gjöfum og framlögum í sjóðinn til skila. Allir eru velkomnir á súpufundina.