28/04/2024

Ólafsdalur, perla sem allir þurfa að heimsækja

Ólafsdalur um miðnættið

Ólafsdalur er merkur sögu- og minjastaður í Dalasýslu, við sunnanverðan Gilsfjörð, um 6 km frá veginum yfir Gilsfjarðarbrúna. Þar var fyrsti búnaðarskóli Íslands stofnaður af frumkvöðlinum Torfa Bjarnasyni árið 1880, fyrir 135 árum. Auk þess er nú 100 ártíð Torfa (d. 1915). Í  Ólafsdal verður opið alla daga í sumar kl. 12:00-17:00  fram til 16. ágúst. Umsjónarmenn verða hjónin Elfa Stefánsdóttir tómstundafræðingur og Haraldur Baldursson tæknifræðingur. Sýningar eru þar um sögu Ólafsdalsskólans, konurnar í Ólafsdal o.fl., en auk þess er skólahúsið sjálft frá 1896 fallegt og skoðunarvert.

Í sumar verður þar boðið upp á kaffi,  rjómavöfflur og ís frá rjómabúinu á Erpsstöðum.  Einnig geta gestir fræðst um lífræna rækun grænmetis í Ólafsdal og keypt það á staðnum. Fræðslustígur er í Ólafsdal og góðar gönguleiðir í fallegum umhverfi. Staðurinn er því ein af þessum perlum á Íslandi sem allir þurfa að heimsækja.

Ólafsdalshátíð verður að þessu sinni haldin laugardaginn 8. ágúst.  Verður dagskráin fjölbreytt og fjölskylduvæn að vanda; tónlistaratriði, skemmtun fyrir börnin, áhugaverð erindi, vandaður handverksmarkaður og veitingar. Þá verður lífrænt vottað Ólafsdalsgrænmeti til sölu og glæsilegt Ólafsdalshappdrætti. Nánari upplýsingar um Ólafsdal má finna á www.olafsdalur.is og www.facebook.com/Olafsdalur.

Frétt og mynd: Rögnvaldur Guðmundsson.