12/12/2024

Nýtt póstnúmer við Djúp

Íslandspóstur hf hefur ákveðið að breyta póstnúmerinu á bæjum við Ísafjarðardjúp sem tilheyra Hólmavíkurhreppi, en áður Nauteyrarhreppi. Upphaflega mun hafa átt að breyta númerinu í 402 Ísafjörður, en eftir mótmæli heimamanna sem vissu sem var að pósturinn þeirra kemur frá Hólmavík var fallist á að númerið yrði 512 Hólmavík.

Ekki virðast allir starfsmenn Íslandspósts vera sérlega sleipir í landafræðinni, ef mark má taka af vefsíðu fyrirtækisins. Þar má t.d. finna kort sem sýnir póstnúmer á Íslandi og númerin í Árneshreppi eru þar dreifð alveg norður á Hornstrandir – bæði Norðurfjörður og Kjörvogur eru þar á afar dularfullum stöðum svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Við undirbúninginn á breytingunni á póstnúmerinu við Djúp í 512 lentu íbúar Kirkjubóls við Steingrímsfjörð einnig í afar undarlegum bréfaskiptum við starfsmenn Íslandspósts sem áttuðu sig greinilega ekki á því að tveir sveitabæir í Hólmavíkurhreppi, sitt hvoru megin við Steingrímsfjarðarheiðina, gætu heitið sama nafninu. Ekki hefur tekist að leiðrétta þennan misskilning til fulls, því Kirkjuból við Steingrímsfjörð hefur eftir allt saman lent undir póstnúmerinu 512, að minnsta kosti í götuskrá á vef póstsins. Undir 510 í sömu skrá má hins vegar finna Rauðamýri við Djúp og reyndar líka Kaldrananeshrepp sem ætti þó að öllu eðlilegu að vera undir 520.

Vonandi verða þessar hvimleiðu villur lagaðar sem fyrst. Þó má ljóst vera að til þess þarf að koma frumkvæði þeirra starfsmanna Íslandspósts sem þekkja til hér á svæðinu.