06/05/2024

Lögreglan með klippurnar á lofti

Lögreglustöðin á HólmavíkÍ fréttatilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að í síðustu viku héldu lögreglumenn áfram við að leita uppi þær bifreiðar sem ekki hafa verið færðar til skoðunar á réttum tíma.  Eigendum 63 bifreiða var gefinn sjö daga frestur til að færa þær til skoðunar. Þá voru númer fjarlægð af 18 bifreiðum þar sem áðurgefnir frestir voru liðnir eða tryggingar ekki í gildi. Að þessu sinni voru það lögreglumenn frá Ísafirði sem sem sinntu flestum þessara mála.

Eins og fram hefur komið í fréttum þurfti að kalla út björgunarsveitir á þriðjudeginum til að leita að  ökumönnum sem ekki skiluðu sér til byggða á réttum tíma. Báðir þessir aðilar voru fastir á fjallvegum í nágrenni við Patreksfjörð og voru aðstoðaðir til byggða. Þá þurftu björgunarsveitir að aðstoða þegar þakjárn losnaði af skemmu í Bolungarvík og sumarhúsi við Suðurgötu á Ísafirði. Þá losnaði einnig klæðning af húsi við Hafnarstræti á Ísafirði í veðurhamnum.

Einn ökumaður var stöðvaður á Ísafirði á þriðjudeginum grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Um helgina voru tveir aðilar teknir fyrir meinta ölvun við akstur á götum Ísafjarðar. Annar þeirra var 16 ára gamall, réttindalaus og hafði tekið bifreiðina ófrjálsri hendi.   

Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni. Annað varð í miðbæ Ísafjarðar á fimmtudaginn, en hitt varð á Patreksfirði á föstudeginum. Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum og skemmdir á ökutækjum minniháttar.