22/12/2024

Nýjar reglur um vetrarþjónustu á vegum

Birtar hafa verið nýjar reglur um vetrarþjónustu á vegum landsins á heimasíðu Vegagerðarinnar. Þjónusta verður óbreytt frá núgildandi reglum út árið 2009. Frá og með áramótum verður snjómokstur hins vegar skorinn niður og þjónustutíminn á hverjum degi styttur. Þó verður sú breyting nú þegar að heimilt er að moka einu sinni í viku þannig að fært sé fyrir fjórhjóladrifin ökutæki frá hausti fram yfir áramót þar sem svokölluð G-regla gildir og ekki er um aðrar samgönguleiðir að ræða. Þetta á við um Árneshrepp á Ströndum en þá verður mokað einu sinni í viku samkvæmt reglunni til 5. janúar ár hvert, leyfi aðstæður það.

Frá áramótum verður mokað 5 daga í viku á vegi 68 frá Hrútafjarðarbotni í Steingrímsfjörð sem samkvæmt upplýsingaskjali Vegagerðarinnar heitir nú Innstrandarvegur. Fréttaritara strandir.saudfjarsetur.is er ekki kunnugt um við hvaða Innströnd hann er kenndur eða hvert Vegagerðin sæki ráð í nafnamálum. Mokað hefur verið 7 sinnum í viku á þessari leið, en nú fellur niður mokstur á þriðjudögum og laugardögum.

Mokstur verður hins vegar 6 daga í viku um Djúpveg 61 um
Arnkötludal og Steingrímsfjarðarheiði til Ísafjarðar. Snjómokstri á Laxárdalsheiði verður hætt yfir
háveturinn og færist sú leið undir G-regluna þar sem ekki er mokað frá
1. nóvember – 20. mars. Einnig hefur verið mokað 7 daga í viku á þessari leið, en laugardaga verður ekki mokað frá áramótum.

Hálkuvarnir verða með þeim hætti að vegir á Ströndum í Steingrímsfirði og sunnar, ásamt Steingrímsfjarðaheiði og Arnkötludal falla undir þjónustuflokk 3, þar sem hálkuvarið er á afmörkuðum fyrirfram ákveðnum varasömum stöðum. Norðan Steingrímsfjarðar og um Laxárdalsheiði verður hins vegar einungis hálkuvarið á mjög varasömum stöðum, enda tilheyra vegir þar 4. og neðsta þjónustuflokki.

Nánar má fræðast um niðurskurðinn undir þessum tengli.