21/12/2024

Nýbúar í Strandabyggð


Á klettatanga í Strandabyggð er nú komin dílaskarfabyggð. Það væri ekki í frásögu færandi nema fyrir það að aðalvarpstaðir dílaskarfs er í Breiðafirði og Faxaflóa og lítið sem ekkert utan þeirra svæða. Ekki er vitað um annað dílaskarfsvarp á Ströndum. Þarna voru í sumar á sjötta tug hreiðra en talið var að um 25 hreiður hefðu verið þar í fyrra. Dílaskarfur er um helmingi stærri en frændi hans toppskarfurinn og hleður myndarlega hreiðurdyngju úr þaradrjólum og þöngulhausum. Dílaskarfur gengur ekki sérstaklega snyrtilega um byggðina sína, en varpstaðir eru auðþekktir á hvítu dritinu sem þekur byggðina.

Á meðfylgjandi mynd Péturs Matthíassonar má sjá þrjá unga í hreiðurhrauk. Eftir myndinni að dæma virðast þeir misjafnlega lyntir. Einn kúrir óáreittur og spakur, annar starir einbeittur út í fjarskann á meðan sá þriðji er ekkert annað en heimtufrekjan og græðgin.