27/04/2024

Kjörbúðin Óspakseyri opnar í dag


Í dag, miðvikudaginn 1. ágúst, verður ný verslun opnuð á Ströndum. Þar er um að ræða Kjörbúðina Óspakseyri sem er til húsa á Óspakseyri í Bitrufirði. Kaupfélag Bitrufjarðar rak áður verslun í húsinu til ársins 2004. Opnað verður með viðhöfn kl. 15:00 og eru allir boðnir velkomnir, ýmisleg tilboð verða í gangi og grillaðar pylsur fyrir börnin. Allt milli himins og jarðar er á boðstólum í búðinni, nauðsynjar og gjafavörur, og einnig verður upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn á staðnum. Opið verður frá 9-18 alla daga í ágúst. Fyrir verslunarrekstrinum standa Andrea Vigfúsdóttir og Jón Bjarnason á Bræðrabrekku.

Í ár eru einmitt 100 ár síðan verslunarrekstur hófst á Óspakseyri. Árið 1912 keypti maður að nafni Metúsalem Jóhannsson Óspakseyri af Marinó Hafstein sýslumanni Strandamanna sem hafði búið þar frá því um aldamót. Engin verslun hafði þá verið á Óspakseyri, að öðru leyti en því að afgreiddar voru vörur eftir pöntun frá Dalafélaginu sem náði yfir Dali og nokkurn hluta Strandasýslu. Árið 1914 keypti svo Sigurgeir Ásgeirsson verslunina og rak hana til ársloka 1936.

Kaupfélag Hrútfirðinga lét byggja lítið verslunarhús á Óspakseyri vorið 1929 og hóf þar verslun. Þegar Sigurgeir hætti tók útibú Kaupfélagsins svo verslun hans á leigu. Um svipað leyti kom í ljós að menn höfðu áhuga á því að stofna sjálfstætt kaupfélag og kom það til framkvæmda árið 1942 þegar Kaupfélag Bitrufjarðar var stofnað. Tók það þá við öllum umsvifum og rak meðal annars sláturhús þar til ársins 2003. Verslun Kaupfélags Bitrufjarðar var lokað ári síðar. 

Það er gleðiefni að verslunarrekstur skuli hefjast að nýju á Óspakseyri og hvetur vefurinn strandir.saudfjarsetur.is fólk til að líta við í Kjörbúðinni.