12/11/2024

Ný stjórn hjá Leikfélagi Hólmavíkur

300-leikfelag-adalfundurAðalfundur Leikfélags Hólmavíkur var haldinn í gær og var þar kosin ný stjórn í félaginu. Aðalmenn í stjórn eru nú Ingibjörg Sigurðardóttir, Arnar S. Jónsson og Salbjörg Engilbertsdóttir. Margt var skrafað og skeggrætt á fundinum, bæði fornir leiksigrar, uppsetning síðasta vetrar á Viltu finna milljón? (sem skilaði dálitlum hagnaði) og framtíðin. Samþykkt var að taka stefnuna á stórt samstarfsverkefni með Grunnskólanum og Tónskólanum á Hólmavík í vetur, auk þess sem kanna átti möguleika á frekari starfsemi, uppákomum og uppsetningum. Fjárhagsleg staða Leikfélagsins er öfugu megin við núllið og voru ræddar leiðir til að snúa því við.

Leikfélag Hólmavíkur var stofnað 3. maí 1981 og hefur síðan sett upp yfir 30 leikrit af öllum stærðum og gerðum. Gamanleiki, farsa, dramatísk leikverk, söngleiki, barnaleikrit, einþáttunga, einleiki og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Samstarf við Grunnskólann og Tónskólann á Hólmavík hefur verið afbragðsgott og stundum hefur Leikfélagið sett upp leikrit í samvinnu við skólann.

Yfir 100 manns hafa stigið á svið í leikritum hjá Leikfélagi Hólmavíkur og þeir öflugustu hafa leikið í meira en 10 uppsetningum. Það þarf þó að huga að mörgu fleiru en að manna hlutverkin þegar setja á upp góða leiksýningu. Fyrir utan alla leikarana þarf einhvern sem tekur að sér að leikstýra og best er þegar leikstjórinn hefur sérlegan aðstoðarmann. Svo þarf að sjá um og smíða sviðsmyndina, það þarf ljósamenn og hljóðmenn, hvíslara og sviðsmenn og búningahönnuði og saumakonur og förðunarmeistara. Stundum þarf einhvern til að draga frá og fyrir eða jafnvel heilu hljómsveitirnar. Einhver þarf að gera leikskrána og aðgöngumiðana og halda utan um búningasafnið, leikmunadeildina, skipulagið og starfsemina. Og svo þarf formann og ritara og einhver verður að vera gjaldkeri, það er nú eitt vandaverkið.

Leikfélag Hólmavíkur hefur verið einstaklega duglegt við að fara í leikferðir og hefur sýnt á fjölmörgum stöðum á landinu. Meira að segja hefur verið farið í hringferð um landið með eitt leikritið, Djúpavíkurævintýrið. Leikferðalögin eru mörg hver heilmikil ævintýri og lifa í minningunni. Það er stórskemmtilegt að sýna á stöðum eins og Bolungarvík, Trékyllisvík, Hrísey, Ketilási, Borgarfirði eystra, Lundarreykjadal og Raufarhöfn.

Leikfélag Hólmavíkur gerir líka margt annað en að setja upp leikrit og flækjast með þau um landið. Eitt af því er að standa fyrir námskeiðum um margvísleg efni tengd leikhússtarfinu. Svo eru líka haldin sérlega vel heppnuð partí öðru hverju og stundum horfa leikfélagar saman á gamlar upptökur af leikritum eða skoða saman myndir úr leikferðum.

Svo hafa leikfélagar leikið í kvikmyndum, gert útvarpsþátt, haldið skemmtikvöld, staðið óteljandi sinnum fyrir sprelli á hátíðisdögum, sungið og dansað, og jafnvel samið leikrit sjálfir. Möguleikarnir á að gera skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki er vægast sagt óendanlegir í leikfélagi.

Leikfélag Hólmavíkur er þátttakandi í Bandalagi íslenskra leikfélaga. Vefsíða félagsins er á slóðinni www.holmavik.is/leikfelag, vönduð og skemmtileg síða með gamansögum og myndum. Leikfélag Hólmavíkur er líka á Fésbókinni og vill gjarnan eignast fleiri vini.