22/12/2024

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða endurvakin

Laugardaginn 5. apríl nk. kl. 14:00 verður haldinn fundur í Hömrum Ísafirði, þar
sem stofnuð verða samtök til verndar vestfirskri náttúru. Árið 1971 voru stofnuð
í Flókalundi Vestfirzk náttúruverndarsamtök og voru þau mjög virk í um 15 ár.
Samtökin gáfu m.a. út tímaritið Kaldbak og  áttu stóran þátt í friðlýsingu
Hornstranda en síðan féll starfsemin niður. Nú er ætlunin að endurreisa þessi
samtök undir heitinu Náttúrverndarsamtök Vestfjarða.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra verður heiðursgestur fundarins á
laugardag og mun hún ávarpa fundinn. Meðal annarra frummælenda verða Þórhallur
Arason, Ómar Ragnarsson og Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka
Íslands. Fundarstjóri verður Ólína Þorvarðardóttir.

Helstu verkefni
náttúruverndarsamtaka eru verndun náttúru, umhverfisfræðsla, friðlýsing merkra
og fagurra staða, verndun minja og skynsamleg nýting náttúruauðlinda. Það er
vissulega löngu tímabært að vestfirsk náttúra eignist aftur málsvara í
heimabyggð. Vestfirðingar hafa löngum verið hreyknir af þeirri einstöku
náttúrufegurð sem hér ríkir og er hún stór og mikilvægur þáttur í þeirri ímynd
sem Vestfirðingar hafa skapað sér á undanförnum árum.

Vestfirðingar eru
hvattir til að mæta á fundinn og láta sig varða þetta mikilvæga málefni. Þeir
sem ekki komast en vilja ganga í samtökin geta hringt í Bryndísi, eða Sigríði (
861 1426) eða sent tölvupóst á netföngin smg5@simnet.is og bryndis@isafjordur.is