22/12/2024

Náttúrustofa Vestfjarða með starfsmann á Ströndum

Náttúrustofa Vestfjarða hefur bætt við sig starfsmanni sem vinnur í gróðurdeild stofunnar og verður með aðsetur á Ströndum. Starfstöðin verður á Hólmavík og væntanlega í hinu nýja Þróunarsetri. Samstarf er um starfið milli Náttúrustofu Vestfjarða og Náttúrufræðistofnunnar og snýst það um gróðurkortagerð og önnur verkefni sem lúta að gróðurfari og gróðri á Vestfjörðum, rannsóknum og eftirliti. Hafdís Sturlaugsdóttir í Húsavík við Steingrímsfjörð hefur verið ráðin í starfið, en hún er landnýtingarfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Þetta starf kemur m.a. vegna tillagna svokallaðrar Vestfjarðarnefndar frá því í vor, en í tengslum við þær var tryggt fjármagn í stöðuna.