30/10/2024

Námskeið á næstunni

Nú eru að byrja á Hólmavík í næstu viku tvö námskeið á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Annars vegar er um að ræða dönskunámskeið fyrir byrjendur þar sem Anna Birna Gunnlaugsdóttir verður leiðbeinandi. Hitt námskeiðið er ljósmyndanámskeið þar sem mönnum er kennt að nota stafrænar myndavélar og vinna með slíkar myndir. Leiðbeinandi þar er Pálmi Guðmundsson sem rekur vefinn www.ljosmyndari.is. Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna hér að neðan, en menn geta skráð þátttöku hjá Kristínu Sigurrós Einars umboðsmanni Fræðslumiðstöðvarinnar á Ströndum (s. 451 3585 og 867 3164) í netfangið stina@holmavik.is

 

Danska fyrir byrjendur

Nú er ekkert nema gaman að læra dönsku! Í bæ sem hefur sterk tengsl við Danmörku er gott að hafa einhverja undirstöðu. Áhersla er lögð á orðaforða og lesskilning og farið yfir grunnatriði í danskri málfræði og málnotkun. Megináhersla er lögð á textalestur og hlustun. Jafnframt er lögð áhersla á að þátttakendur geti tjáð sig munnlega og skriflega.

Leiðbeinandi: Anna Birna Gunnlaugsdóttir
Staður: Grunnskóli Hólmavíkur
Tími: Þriðjudaga og fimmtudaga kl. 20 -21:30 (30 kst). 
Hefst þriðjudaginn 18. október.
Verð: Kr. 24.900 á þátttakanda. Ath. námskeiðið er niðurgreitt fyrir BSRB félaga, enda sæki þeir um á sérstök eyðublöð.

Ljósmyndanámskeið fyrir stafrænar myndavélar
 
Á þessu námskeiði er farið inn á allar helstu stillingar á myndavélinni, þ.á m. hraða, ljósop, dýptarskerpu, ljósmælingu, lýsingu, súmm, ISO, White balance, pixlar, RAW/JPEG og fleira. Myndbyggingarreglur kynntar og ýmis góð ráð gefin varðandi myndatöku á fólki, landslagi, næturtökur og fleira. Einnig eru tekin fyrir tölvumálin, sýnt hvernig færa á myndir yfir í tölvuna, setja myndir í möppur, koma skipulagi á myndasafnið og skráningu mynda, setja leitarorð á myndir, afrita myndir á milli mappa, skipta um nafn á myndum, snúa myndum við, setja myndir yfir á geisladisk, senda myndir með tölvupósti og prenta út myndir. 

Námskeið þetta hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum.

Leiðbeinandi: Pálmi Guðmundsson www.ljosmyndari.is
Kennslustaður: Grunnskóli Hólmavíkur
Tími: Laugardag 15. október kl. 10 -17, sunnudag 16. október kl. 13 -17 (16 kst.)
Verð: Kr. 14.500 á þátttakanda (rútuferð greiðist sér, ef af verður)