22/12/2024

Frá þorrablóti Hólmvíkinga

Hólmvíkingar héldu sitt árlega þorrablót í gær með pompi og prakt. Heilmikil stemmning var á blótinu sem tókst vel í alla staði. Þorranefnd skipuð valinkunnu kvenfólki hélt uppi miklu fjöri með frábærum skemmtiatriðum, menn og konur gæddu sér á gómsætum og vel súrsuðum – þar sem það átti við – þorramat og síðast en ekki síst var dansað og djammað fram á eldrauða nótt. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is – Arnar S. Jónsson – var á svæðinu.

Þorranefndin sem stóð sig með afbrigðum vel skipuðu þær Sólveig Halldórsdóttir, Ragnheiður Guðbrandsdóttir, Margrét Vagnsdóttir, Helga Halldórsdóttir, Elfa Björk Bragadóttir, Sigurlaug Stefansdóttir, María Antonía Jónasdóttir, Ingibjörg Rebekka Valdimarsdóttir og Lára Guðrún Agnarsdóttir.

Það er hefð fyrir því að tilkynna eftir skemmtiatriði hverjir skipa nýja þorranefnd. Nefndina fyrir árið 2006 skipa Þorbjörg Magnúsdóttir, Hallfríður Sigurðardóttir, Ólöf Jónsdóttir, Dagrún Magnúsdóttir, Guðrún Guðfinnssdóttir, Ingibjörg Emilsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir og Hildur Guðjónsdóttir. Til vara eru þær Ásdís Leifsdóttir og Viktoría Ólafsdóttir.