22/12/2024

Myndagetraun af tilefni leiksýningar

Sjöunda og síðasta sýning Leikfélags Hólmavíkur á leikritinu Þið munið hann Jörund verður í Félagsheimilinu á Hólmavík í kvöld og hefst kl. 20:30. Leiksýningin hefur fengið gríðarlega góða dóma hjá gestum og einhverjir ánetjast henni og komið nokkrum sinnum. Dæmi eru um að fólk hafi komið allt að þrisvar sinnum á sýninguna og ætli sér ekki að láta hana framhjá sér fara í kvöld. Það er nokkuð víst að leiksýningin í kvöld verður ansi fjörlegt og leikarararnir ætla að sjá til þess að gestirnir skemmti sér hið besta. Af tilefni síðustu sýningarinnar á Þið munið hann Jörund hefur strandir.saudfjarsetur.is sett upp litla myndagetraun á Strandamannaspjallinu.

Myndin sem birtist með þessari frétt er af ókennilegri persónu sem starfar af krafti með leikfélaginu. Spurningin gengur út á það hvað persónan heiti fullu nafni og síðan þarf að skrifa myndatexta um það hversvegna persónan felur hausinn á sér í kassanum. Sigurvegari getraunarinnar verður sá sem getur til um rétt nafn og kemur með skemmtilegasta myndatextann að áliti dómnefndar. Skilja þarf eftir nafn og símanúmer en verðlaunin er frímiði á síðustu sýninguna á Þið munið hann Jörund í kvöld. Dómnefnd tekur til starfa klukkan 18:00 svo það þarf að hafa hraðar hendur.

Hægt er að taka þátt í þessum skemmtilega leik með því að smella hér.