29/03/2024

Sumarstarf í Sævangi

Nú er sumarið óðum að nálgast og einhverjir farnir að líta í kringum sig eftir sumarstarfi. Meðal þeirra fyrirtækja sem hafa auglýst eftir starfskrafti fyrir næsta sumar er Sauðfjársetur á Ströndum. Starfið er við sýninguna í Sævangi, en starfshlutfallið verður um 50%. Það sem starfsmenn Sauðfjársetursins þurfa fyrst og fremst að hafa í farteskinu er jákvæðni, dugnaður og samviskusemi, auk þess að eiga auðvelt með mannleg samskipti. Gott er að starfsmenn hafi reynslu af þjónustustörfum og búi yfir kunnáttu í erlendum tungumálum.

Starfsmennirnir afgreiða á sýningunni og í handverksbúð og veita leiðsögn, auk þess að sjá um afgreiðslu og rekstur kaffistofu í samráði við forstöðu­mann, bakstur og undirbúning fyrir kaffihlaðborð. Þeir sjá einnig um uppgjör og skýrsluhald, skrá muni og minjar. Þá er ætlast til að þeir taki þátt í vinnu við markaðssetningu og skipulagningu atburða og hátíðahalda.

Sýningin verður opin 10:00-18:00 alla daga frá 1. júní – 31. ágúst.

Umsóknarfrestur er til 4. maí.  Fyrirspurnir og skriflegar umsóknir skal senda á netfangið saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is eða til Arnars Jónssonar, Víkurtúni 17, 510 Hólmavík.