12/09/2024

Skólaakstri og starfsmönnum sagt upp

Í fundargerð hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps þann 10. maí kemur fram að hreppsnefnd samþykkti þar samhljóða tillögu varaoddvita um að skólaakstri á vegum hreppsins verði sagt upp og einnig verði starfsmönnum Skólaskjóls sagt upp störfum frá 1. júní næstkomandi. Í bókun frá fundinum segir að finna eigi annan flöt á skólaakstrinum og annan rekstrargrundvöll fyrir Skólaskjólið, en ekki útskýrt nánar hvaða hugmyndir eru uppi í þeim efnum. Tveir skólabílar hafa verið í förum hjá Hólmavíkurhreppi, annar ekur börnum úr Djúpi og hinn börnum úr Tungusveit. Hjá Skólaskjólinu sem starfrækt hefur verið í Félagsheimilinu á Hólmavík hafa verið tveir starfsmenn. Þar hafa börn í 1.-4. bekk átt athvarf eftir að skóla lýkur og fram eftir degi.