22/12/2024

Minnisvarði við Hófsvað

Fyrrum bílstjórar hjá fyrirtæki Guðmundar Jónassonar fjallabílstjóra hafa reist minnisvarða við Hófsvað í minningu aldarafmælis Guðmundar Jónassonar (f. 11. júní 1909, d. 5. mars 1985). Guðmundur bar sæmdarheitið fjallabílstjóri og var frumkvöðull að ferðum um hálendi Íslands. Hann ásamt fleirum fann bílfært vað yfir Tungná árið 1950 og markaði það tímamót í akstri vélknúinna ökutækja um hálendi Íslands, svo sem í Veiðivötn og norður Sprengisand o.fl. staði. Bílstjórar þessir störfuðu með Guðmundi þegar blómaskeið hálendistjaldferða stóð sem hæst og nefna sig „Gullaldarlið G.J.“

Minnisvarðinn er staðsettur á leiðinni í Landmannalaugar og geta ferðalangar skoðað hann þar. Minnisvarðinn er stuðlaberg með áletraðri plötu og fellur hann vel að umhverfinu. Einnig hefur Gullaldarliðið látið gera áhugaverða styttu úr sandsteini af Guðmundi, þar sem dregin eru fram helstu sérkenni Guðmundar í fjallaferðum. Stytta þessi er varðveitt á Jöklasafninu á Höfn í Hornafirði.

Minnisvarði

Þrír ættliðir frá Guðmundi Jónassyni – Gunnar Guðmundsson, Guðmundur Gunnarsson og Jónas Guðmundsson

Gullaldarlið Guðmundar Jónassonar. Frá vinstri eru Pálmi Sigurðsson, Gunnar Ólason, Þórhallur Geirsson, Þórir Magnússon, Ómar Hafliðason, Einar Valdimarsson og Þórður Stefánsson

frettamyndir/2009/580-gj-hofsvad.jpg

Hófsvað