22/12/2024

Mikill erill á galdrasafninu

Talsverður erill hefur verið undanfarið á Galdrasýningu á Ströndum bæði við að taka á móti ferðamönnum sem hafa komið með fyrri skipunum og skólahópum. Framundan eru einnig talsverðar annir með skólahópa. Í dag kom 30 manna blandaður skólahópur úr Andakílsskóla og Hólmavíkurskóla og næstkomadi sunnudag er von á 60 manna nemendahópi frá Ísafirði. Daginn eftir ætlar Grunnskólinn í Búðardal að leggja leið sína á Galdrasýninguna og börnin á Borðeyri fylgja svo í kjölfarið daginn þar á eftir.

Verið er að leggja lokahönd á frágang galdragarðsins og meðal annars er verið að hanna og smíða áningarborð úr hvalbeini og rekaviði sem prýða mun garðinn og næstu daga verður húsið málað að nýju. Björk Bjarnadóttir sem er mörgum Hólmvíkingum af góðu kunn frá vinnu sinni á sýningunni í fyrra er mætt til starfa á ný, en hún stefnir á mikið fjör í allt sumar á Ströndum.