14/09/2024

Útgáfuhóf í Drangsnesskóla


Í haust tók Birna Hjaltadóttir frá Bæ í Árneshrepp við stjórn Grunnskólans á Drangsnesi og hefur verið bryddað upp á ýmsum nýjungum í skólastarfinu. Meðal þeirra er að fá gestakennara inn í skólann annað slagið. Síðastliðnar þrjár vikur hafa þau Berglind Häsler fjölmiðlafræðingur og Svavar Pétur Eysteinsson grafískur hönnuður verið við störf. Þau hafa leiðbeint nemendum hvernig skuli gefa út blað og hafa því nemendur farið í öll störf sem falla, tekið viðtöl og unnið á auglýsingadeildinni. Hafa nemendur sýnt þessu verkefni mikinn áhuga og meðal annars heyrðist að einn nemandi hafði hug á að vinna við blaðamennsku í framtíðinni.

Í dag kom svo út tímaritið Drangurinn og  var því efnt til útgáfuhófs í skólanum þar sem mikið var um dýrðir. Fjöldi fólks mætti í frábæru haustveðri í ljúfa tóna og léttar veitingar sem nemendur útbjuggu. Á haustmánuðum voru stofnaðar tvær skólahljómsveitir að undirlagi Björns Kristjánssonar kennara við skólann sem þykir allgott í 11 nemenda skóla. Áhugi á tónlist er mjög mikill og hefur Björn unnið mjög gott starf með krökkunum. Einnig koma tónlistarkennarar frá Hólmavík á Drangsnes einu sinni í viku og eru rúm 90% nemenda í tónlistarkennslu.

Útgáfuhófið vakti mikla lukku hjá þeim gestum sem hófið sóttu og var einróma ánægja þeirra með framtak skólans í útgáfumálum og öðrum skapandi störfum. Allir sem viðstaddir voru héldu hamingjusamir og ánægðir úr skólanum að skemmtun lokinni, út í þennan fallega dag við Húnaflóa.

 Útgáfuhátíð

frettamyndir/2012/645-utgafuhof1.jpg

Útgáfuhóf í Drangsnesskóla – ljósm. Alla Óskars