14/09/2024

Mikil aðsókn á Hamingjudaga

Fjöldi manns hefur lagt leið sína til Hólmavíkur í dag og aðsóknin að viðburðum á Hamingjudögum er með besta móti. Á morgun er morgunmatur á Café Riis frá 9:00 og dagskráin hefst kl. 9:30 en þá er gönguferð um Hólmavík með leiðsögn Jóns Alfreðssonar. Á sama tíma hefst þjóðsagnafjör í félagsheimilinu í umsjón Jóns Jónssonar þjóðfræðings fyrir börn á öllum aldri undir yfirskriftinni Draugar og tröll og ósköpin öll. Jón er einn af fáum mönnum sem geta sagt draugasögur jafnvel í myrkri og um hábjartan dag. Jón stefnir að því að viðstaddir verði dauðskelkaðir og segir að ætlunin sé að hræða börnin sem þátt taka í þjóðsagnasmiðjunni ærlega.

Fyrir hádegi á morgun hefst einnig bikarkeppni HSS kl. 10:00 og á sama tíma opna listsýningarnar í gamla Kaupfélagshúsinu. Kassabílarallið víðfræga verður síðan á Höfðagötunni kl. 11:00.

Fjöldi manns er á tjaldsvæðinu á Hólmavík og eins í fjölmörgum húsagörðum og húsum á Hólmavík.