23/12/2024

Mikið um að vera í menningarlífinu

DalbærÞað er mikið um að vera um helgina í menningarlífinu og ferðaþjónustunni á Ströndum og nágrenni. Í dag, laugardaginn 21. júní, heldur skákmótið í Djúpavík áfram kl. 13:00 og eru allir velkomnir að fylgjast með. Í Snæfjallasetrinu í Dalbæ, utan við Kaldalón við Djúp, verður dagskrá til heiðurs Steini Steinarr og stendur hún frá kl. 15:00-18:00. Þar verða margvísleg atriði, m.a. söngdúett frá Hólmavík sem syngur lög við ljóð Steins og Kómedíuleikhúsið sýnir Búlúlala. Þá syngja Gamlir fóstbræður ásamt óperusöngvaranum Gunnari Guðbjörnssyni undir stjórn Jónasar Ingimundarsonar í Hólmavíkurkirkju kl. 16:00 í dag. Loks má nefna að hlaðborð með íslensku þema verður á boðstólum á Café Riis á Hólmavík í kvöld og þar spila síðan Synir syndanna frá kl. 23:00 í kvöld.

Á sunnudag verður hraðskákmót klukkan 12:00 í Kaffi Norðurfirði og karlakórinn Gamlir fóstbræður slá botninn í skákhátíðina í Árneshreppi með söngveislu klukkan 14:00 í Trékyllisvík.

Skipulögð gönguferð er einnig í boði á sunnudag á slóðir landvætta og forynja, frá Selárdal við norðanverðan Steingrímsfjörð að Stað í Steingrímsfirði. Það er Matthías Lýðsson svæðisleiðsögumaður sem hefur umsjón með ferðinni, en lagt verður upp kl. 13:30 og er mæting við Geirmundarstaði. Ætla má að gangan taki um það bil 5 tíma og er fólki ráðlagt að taka með sér nesti og góða skó.

Þá verða afhjúpuð fuglaskilti hjá ferðaþjónustunni í Heydal við Mjóafjörð á sunnudaginn og hefst sá viðburður kl. 14:30.

Loks má nefna fyrsta kaffihlaðborð sumarsins hjá Hótel Djúpavík sem verður á sunnudag og hefst kl. 14:00.