24/07/2024

Miðasalan endurtekin

Sumum finnst þetta voða gottHið árlega þorrablót Hólmvíkinga og nærsveitunga verður haldið næstkomandi laugardag. þann 29. janúar. Nú hefur sú nýbreytni verið tekin upp að selja miða fyrirfram til að auðveldara sé að ákveða fjölda gesta. Miðasalan fór fram á mánudaginn en í ljósi þess að fólk skilaði sér ekki í jafn miklum mæli og vonast hafði verið til verður salan endurtekin. Miðasalan verður í Félagsheimilinu fimmtudaginn 27. janúar, frá kl. 17:00-18:00.

Miðaverðið er kr. 4.000.- og rétt er að benda á að ekki er tekið við greiðslukortum. Nánari upplýsingar gefa María (692-8974), Elfa Björk (892-9589) og Margrét (895-1535).

Að sögn nokkurra kvenna í þorrablótsnefnd sem fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is hefur náð tali af, ganga æfingar á skemmtiatriðum frekar hægt en þó örugglega fyrir sig. Ein nefndarkonan hafði á orði að hið fornfræga íslenska máltæki, þetta reddast, sé í hávegum haft við æfingar á atriðunum – eins og venjulega.