22/12/2024

Lokadagur Barnamenningarhátíðar í dag

barnam1

Seinasti dagur Barnamenningarhátíðar í Strandabyggð er í dag og er ætlunin að ljúka hátíðinni með pompi og prakt. Fyrsti viðburðurinn í dag er í Hólmavíkurkirkju kl. 11:00 þar sem börn úr Leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík ætla að syngja nokkur lög. Önnur sýning á leikritinu Ballið á Bessastöðum sem Leikfélag Hólmavíkur setur upp verður síðan í félagsheimilinu á Hólmavík kl. 14:00. Seinasti viðburðurinn á Barnamenningarhátíðinni verður svo kl. 17:00 í Sævangi, þar sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í spurningaleiknum Kaffikvörn sem Náttúrubarnaskólinn og Sauðfjársetrið standa fyrir í sameiningu.

Meðfylgjandi mynd er frá Festivalinu Húllumhæ sem haldið var í gær í Félagsheimilinu á Hólmavík. Þarna voru m.a. töframaður og tónlistaratriði á dagskránni, auk ávarps Ástu Þórisdóttur formanns Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar Strandabyggðar. Tómstundafulltrúi Strandabyggðar, Íris Ósk Ingadóttir, fékk þarna verðskuldað klapp fyrir frammistöðu sína við framkvæmd hátíðarinnar sem hefur verið bæði viðamikil og vegleg.

Á myndinni láta nokkrir nemendur Tónskólans á Hólmavík ljós sitt skína við flutning á íslenskum þjóðlögum. -ljósm. strandir.saudfjarsetur.is/Jón Jónsson