13/09/2024

Lögregluumdæmi á Ströndum lagt niður?

Nefnd sem skipuð var af Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra hefur skilað tillögum um nýskipan lögreglumála og ráðherra fallist á tillögurnar í meginatriðum. Í þeim felst að lögregluumdæmi í landinu verði 15 í stað 26 eins og nú er og þar af verði sjö skilgreind sem lykilembætti. Lögreglustjóraembættið á Hólmavík yrði þar með lagt niður og stjórnun og umsjón með löggæslu á Ströndum, Dölum og Reykhólasveit myndi færast í Borgarnes.

Í tillögunni segir orðrétt [leturbr. strandir.saudfjarsetur.is]:

Hvað varðar einstök svæði þarf að huga að eftirfarandi atriðum þegar kemur að fjárveitingum og tilfærslum:

Vesturland. Fjárveitingar til löggæslu hjá embættunum í Búðardal og Hólmavík féllu til embættisins í Borgarnesi. Gert er ráð fyrir því í þessum tillögum að löggæsla í Reykhólahreppi tilheyri Vesturlandi og þyrfti að huga að viðeigandi tilfærslu fjármuna til að standa undir því. Hvað varðar starfrækslu  rannsóknardeildar er gert ráð fyrir því að hún verði hjá lykilembættinu í Borgarnesi og félli því fjárveiting vegna rannsóknarlögreglumanns á Akranesi til embættisins í Borgarnesi.

Vestfirðir. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar til löggæslu í Bolungarvík og á Patreksfirði falli alfarið til embættisins á Ísafirði, sbr. þó framangreind athugasemd vegna Reykhólahrepps.

Tillögur nefndarinnar fela í sér að löggæsla hverfi alfarið frá að minnsta kosti níu embættum sýslumanna, þ.e. sýslumönnunum í Hafnarfirði, Kópavogi, Búðardal, Patreksfirði, Hólmavík, Siglufirði, Ólafsfirði, Höfn og Vík í Mýrdal. Þá er einnig gerð tillaga um það að löggæsla á Reykjanesi verði á ábyrgð eins embættis í Keflavík, en eins og kunnugt er fellur embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli undir yfirstjórn utanríkisráðuneytisins. Samkvæmt þessu myndi sýslumannsembættum sem ekki fara með löggæslu fjölga um að minnsta kosti níu embætti, en í dag er sýslumaðurinn í Reykjavík eini sýslumaðurinn sem ekki ber jafnframt ábyrgð á löggæslu í sínu umdæmi. Ljóst er að aukið svigrúm skapast hjá flestum þeim embættum sem að framan eru talin til að bæta við sig verkefnum. Hvetur nefndin til þess að hugað verði sérstaklega að því að flytja verkefni til umræddra embætta, sem í mörgum tilvikum ætti að vera unnt að gera án mikils viðbótar fjármagns.