03/05/2024

Lögreglu stjórnað frá Ísafirði

Samkvæmt nýjum tillögum Björn Bjarnasonar dómsmálaráðherra hefur verið fallið frá því að lögregluliðinu á Ströndum verði framvegis stjórnað frá Borgarnesi, en þess í stað verður því stjórnað frá Ísafirði. Í skýrslum sem aðgengilegar eru á vef stjórnarráðsins, kemur fram að þessi tilhögun sé í samræmi við óskir Strandamanna. Flytja á verkefni til lítilla sýslumannsembætta og er ekki laust við að Strandamenn bíði spenntir eftir að sjá hvort þau verkefni sem sýslumannsembættið á Hólmavík fái í sinn hlut hafi fleiri störf í för með sér á svæðið. Markmiðið með breytingunum mun vera að efla og styrkja löggæslu, bæði rannsókn sakamála og almenna, sýnilega löggæslu.

Breytingarnar verða þessar samkvæmt vef Dómsmálaráðuneytis:

1. Lögregluumdæmi í landinu verði 15 talsins (innan sviga þau umdæmi sem bætast við fyrrnefnt umdæmi); Akranes, Borgarnes (Búðardalur), Stykkishólmur, Ísafjörður (Patreksfjörður, Bolungarvík og Hólmavík), Blönduós, Sauðárkrókur, Akureyri (Siglufjörður og Ólafsfjörður), Húsavík, Seyðisfjörður, Eskifjörður (Höfn), Hvolsvöllur (Vík í Mýrdal), Vestmannaeyjar, Selfoss, Keflavík/Keflavíkurflugvöllur og sameinað embætti á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður).

2. Af þessum 15 verði 7 skilgreind sem lykilembætti. Það verði embættin á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Eskifirði, Selfossi, Keflavík og sameinað embætti á höfuðborgarsvæðinu.

3. Lögreglustöðvum verði ekki lokað vegna breytinga á lögregluumdæmum og sérstaklega verði ákveðið í reglugerð að lögregluvarðstofur utan aðalstöðvar lögreglu skuli vera í Búðardal, á Patreksfirði, Hólmavík, Bolungarvík, Siglufirði, Ólafsfirði, Höfn í Hornafirði, Kirkjubæjarklaustri og Vík í Mýrdal auk þeirra staða sem nú eru tilgreindir í viðkomandi reglugerð.

4. Nýtt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu taki við löggæsluverkefnum lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannanna í Hafnarfirði og Kópavogi.

5. Skipulagi ákæruvalds verði breytt. Lögreglustjórar verði aðeins með ákæruvald í venjulegum lögreglumálum. Milli lögreglustjóra og ríkissaksóknara starfi saksóknarar, sem beri ábyrgð á meðferð ákæruvalds með vísan til ákveðinna embætta, landshluta eða málaflokka og lúti eftirliti ríkissaksóknara en fái lögreglumenn til samstarfs við rannsókn mála, svo sem efnahagsbrota. Sett verði sérstök lög um ákæruvaldið.

6. Dómsmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið vinni að sameiginlegum tillögum um skipan löggæsluumdæmanna á Keflavíkurflugvelli og Keflavík.

7. Lítil sýslumannsembætti verði efld með flutningi verkefna og starfa frá ráðuneytum og stofnunum til embættanna. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur þegar lagt drög að því að flytja m.a. eftirfarandi verkefni til lítilla sýslumannsembætta:

  1. Miðstöð ættleiðinga.
  2. Sjóðir- og skipulagsskrár.
  3. Miðstöð fasteignasölueftirlits.
  4. Útgáfa Lögbirtingablaðs.
  5. Málefni bótanefndar.
  6. Málefni skjalaþýðenda.
  7. Miðstöð eftirlits með útfararþjónustu.
  8. Miðstöð happdrættiseftirlits.
  9. Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar.

Líklegt er að heildarkostnaður við flutning verkefna i-viii og fjölgun starfa á landsbyggðinni nemi um 50 m.kr. á ársgrundvelli. Í flestum tilvikum kallar flutningur þessara verkefna á lagabreytingar og annan undirbúning. Dómsmálaráðuneytið hefur í samvinnu við sýslumannsembættið á Blönduósi og fleiri aðila þegar hafið undirbúning að uppsetningu innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar hjá embættinu, og mun reynslan vegna þess flutnings nýtast vel við færslu frekari verkefna til sýslumannsembætta á landsbyggðinni.