15/04/2024

Loftsteinn rekst á jörðina, fimbulvetur fylgir

Skafrenningur á heiðinniÞýskt kvikmyndatökulið verður statt á Ströndum næstu daga, en á miðvikudaginn verða tekin upp atriði í heimildamynd sem heitir Nóttin langa (Die Längste Nacht) í snjónum uppi á Steingrímsfjarðarheiði. Leikfélag Hólmavíkur útvegar statista sem taka þátt í kvikmyndatökunum og eru þeir sem áhuga hafa á að taka þátt hvattir til að hafa samband við Jóhönnu Ásu Einarsdóttir, formann Leikfélagsins (456-3626). Fundur verður annað kvöld þar sem farið verður yfir búninga og slíkt, en um 25 Íslendinga á öllum aldri þarf í statistahlutverk. Munu þeir leika Evrópubúa sem hafa verið á flótta í nokkrar vikur og ráfa yfir snjóbreiðuna á heiðinni. Mun handknúinn járnbrautarvagn einnig koma nokkuð við sögu.

Myndin á að gerast haustið 2007 í Evrópu eftir að loftsteinn á stærð við þann sem útrýmdi risaeðlunum á sínum tíma hefur hrapað á jörðina og fimbulvetur skollið á.

Nánar má fræðast um verkefnið á vefsíðu fyrirtækisins www.gruppe5film.de. Hér er um að ræða virðulegt kvikmyndafyrirtæki sem framleiðir kvikmyndir og heimildarmyndir fyrir margar stærstu evrópsku sjónvarpsstöðvarnar.