04/10/2024

Ljóst hverjir keppa til úrslita

Nú er orðið ljóst hverjir keppa til úrslita í Spurningakeppni Strandamanna á lokakvöldinu sem fram fer sunnudaginn 26. mars næstkomandi. Það eru lið Hólmadrangs, Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík, Leikfélag Hólmavíkur og Strandamenn í Kennaraháskólanum sem tryggðu sér þátttöku á úrslitakvöldinu í feykilega spennandi spurningakeppni sem fram fór í gær í Félagsheimilinu á Hólmavík.

Mjótt var á munum í öllum keppnum kvöldsins og úrslitin réðust ekki fyrr en í vísbendingaspurningunum tveim í lokin í öllum keppnunum. Reyndar í sjálfri lokaspurningunni í tveimur keppnum af þremur. Hólmadrangur lagði lið Strandamanna í Kennaraháskólanum í fyrstu keppni kvöldsins með 20 stigum gegn 17. Úrslitin réðust þar með þriggja stiga svari við vísbendingaspurningu í lokin. Niðurstaðan varð þó að lokum sú að bæði lið komust áfram í 4-liða úrslitin, því Kennaranemarnir voru stigahæsta tapliðið í keppnum kvöldsins og komust áfram á því.

Önnur keppni kvöldsins var ekki síður spennandi á milli Sparisjóðs Strandamanna og Leikfélags Hólmavíkur. Þar réðust úrslitin einnig með þriggja stiga svari við vísbendingarspurningu sem var næstsíðasta spurning kvöldsins. Stigaskorið var 19-15 fyrir Leikfélaginu að lokum.

Í þriðju keppni kvöldsins lögðu Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík síðan lið Kaupfélags Steingrímsfjarðar með 12 stigum gegn 10 þar sem úrslitin réðust ekki heldur fyrr en í lokaspurningu. Þorbjörg Matthíasdóttir í Húsavík spilaði á þverflautu fyrir gesti eftir hléið, en það hefur verið venja í vetur að hafa tónlistaratriði á spurningakeppninni þar sem nemendur í Grunnskólanum á Hólmavík koma fram.

Í lok kvöldsins var dregið fyrir úrslitakvöldið og var niðurstaðan sú að Strandamenn í Kennaraháskólanum mæta Kennurum við Grunnskólann á Hólmavík. Hólmadrangur mætir hins vegar Leikfélagi Hólmavíkur og sigurliðin úr þessum viðureignum keppa síðan til úrslita sama kvöld.

Lið Kennara – Lára, Inga og Hafþór – ljósm. Dagrún Ósk