26/04/2024

Ljóð um Strandir

Fuglahræðan við SævangVefurinn strandir.saudfjarsetur.is fékk á dögunum góða kveðju af Suðurlandinu, frá Inga Heiðmari Jónssyni organista sem kom hér norður á Strandir í júní 2003 ásamt Söngkór Hraungerðisprestakalls. Með fylgdu eftirfarandi tvö smáljóð um Strandir sem urðu til í ferðinni. Myndir frá heimsókn kórsins sem voru góðir gestir má finna á heimasíðu Sauðfjársetursins undir þessum tengli.

Gefum Inga Heiðmari orðið: „Söngljóðin hér að ofan voru bæði ort í tilefni af árlegri vorferð Söngkórs Hraungerðisprestakalls í júní 2003. Gist var tvær nætur á Kirkjubóli í Steingrímsfirði, farið norður í Krossneslaug heila daginn í ferðinni, en grillað seinna kvöldið og slegið upp söngkvöldi í Sævangi síðara kvöldið, en þangað komu fleiri Stranda- og Dalamenn til söngs og allir gestir þáðu kaffi í boði Sauðfjársetursins. Blámi flóans og bjarmi miðnætursólar var seiðandi en veður fremur kalt. Hittum hvarvetna fyrir elskulega gestrisni."

Strandavísur
 
Á góðri stund við heilsum Húnaflóa
og hér á Ströndum enn er margt að sjá,
og víst má finna auðlegð yfrið nóga
þótt andi stundum köldu norðri frá.
Í hverri vík er viðurinn í hrönnum
og víða þekkjast ágæt fiskimið.
Og jörð sem gægist grösug undan fönnum
er gjöful þeim sem una búskap við.
 
En fyrrum voru framdir hérna galdrar
og feiknum lostinn margur reyndist þá,
og hver og einn er við á Ströndum staldrar
um stund er minntur dimma tíma á.
Og enn má sækja ráð til fornra fræða
en fremja núna hvítan galdur skal
og Strandasýslu þreki og þori gæða
svo þróist líf og byggð um strönd og dal.

Höf: Ragnar Böðvarsson í júní 2003

Strandakeðja

Nú skal létta lundu
ljúfa næturstundu
vaka þá með veigum og söng.
Húnaflóans hafið blátt
hleinum býður kossa og sátt.
Blandast raki raddböndum þöndum
reynast óma fjöllin á Ströndum.
Gleði ríkir Sævangs í sal
söngur lífgar meyju og hal.

Höf: Guðmundur Stefánsson Hraungerði í júní 2003