26/04/2024

Dagbók Sighvatar Borgfirðings frá Klúku

10. janúar 1873: „Norðan harðviðri, gaddfrost og kafald, en mold á fjalli. – Ég fór frá Aratungu, vestur yfir Steingrímsfjarðarheiði, villtist þegar á daginn leið, og fann aldrei Lágadal, en komst í myrkri einhvers staðar ofan í Hvannadal, og komst svo fyrst að bæ í Tungu í Dalaminni, sem ég þekkti ekki fyrr en ég kom á hlaðið. – Þar kom ég eftir dagsetur, kalinn á eyra og mjög þrekaður.“

Þannig hljóðar ein færslan í dagbók Sighvatar Grímssonar Borgfirðings frá árinu 1873, en á árunum 1869-1873 bjó þessi sískrifandi alþýðufræðimaður ásamt fjölskyldu sinni á Klúku í Bjarnarfirði við mikla fátækt. Nú stendur Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa fyrir verkefni þar sem dálítill hópur Strandamanna ætlar að skrifa upp dagbókina hans Sighvatar frá þessum árum. Verkefnið er unnið í samvinnu við handritasafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og er ætlunin að þessu verkefni loknu að taka fyrir fleiri heimildir, sem nú er verið að ljósmynda á safninu.

Á vefsíðu verkefnisins sem finna má á þessari slóð segir að öll sem áhuga hafi megi gjarnan slást í hópinn og taka þátt í uppskriftinni. Dagbókin er í heild sinni aðgengileg á handrit.is og á vefsíðu verkefnisins er ritvinnsluskjal sem allir sem hafa tengilinn geta unnið í. Aðrir áhugasamir geta svo skoðað hvernig uppskriftinni miðar.

Rétt er að taka það fram að þó sæluhúsið á Steingrímsfjarðarheiði hafi verið valið sem myndefni með fréttinni, þá var ekki búið að reisa það þegar Sighvatur var þarna á ferðinni í janúar 1873.