23/12/2024

Leitin að Hamingjulaginu 2008

Nú líður að Hamingjudögum á Hólmavík, en þeir verða haldnir helgina 27.-29. júní. Í tilefni af því er leitin að Hamingjulaginu 2008 að hefjast, en á hverju ári er einkennislag hátíðarinnar valið og gefið út á hljómdisk. Fyrsta skrefið í leitinni snýst um að virkja laga- og textahöfunda til góðra verka, en þeir geta skilað sínu framlagi inn til skrifstofu Strandabyggðar. Engin skilyrði eru sett um umfjöllunarefni lagsins, en að líkindum skemmir ekki fyrir að það fjalli eitthvað um Hólmavík eða Hamingjudaga. Laginu þarf að skila fyrir 12. maí, en síðan verður lagasamkeppnin sjálf haldin fimmtudaginn 15. maí. Nálgast má reglur keppninnar með því að smella hér.

Keppnin hefur farið fram þrisvar sinnum áður. Fyrsta sigurlagið, Hamingjudagar á Hólmavík, samdi Kristján Sigurðsson, árið 2006 vann lagasmiðurinn Daníel Bjarnason keppnina með lagið Á Hamingjudögum og í fyrra var það Arnar S. Jónsson sem mætti og sigraði með lagið Hólmavík er bezt.

Laga- og textahöfundar, söngvarar og hljóðfæraleikarar hvar sem er á landinu eru hvattir til að láta hendur standa fram úr ermum næstu daga og vikur – því fleiri því skemmtilegri keppni. Sigurlaun eru kr. 50.000.- Frekari upplýsingar má nálgast hjá framkvæmdastjóra Hamingjudaga, Brynju Bjarnfjörð Magnúsdóttur, í síma 869-9200 / 451-3444 eða í netfangið hamingjudagar@holmavik.is.