22/12/2024

Leikferð um Vestfirði framundan

Leikfélag Hólmavíkur er að leggja af stað í heilmikla leikferð um Vestfirði með hinn bráðfjöruga farsa Með táning í tölvunni, en leikritið hefur fengið mjög góðar viðtökur á Ströndum. Sýnt verður í félagsheimilinu á Patreksfirði fimmtudagskvöld, í félagsheimilinu í Bolungarvík föstudagskvöld og samkomuhúsinu í Súðavík laugardagskvöld. Allar sýningar hefjast kl. 20:00. Leikfélag Hólmavíkur hefur verið duglegt við leikferðalög öll þau 30 ár sem það hefur starfað og sýnt á yfir 50 stöðum á landinu. Aldrei hefur þó verið sýnt í Súðavík áður.

Í leikritinu sem er bráðskemmtilegur gamanleikur segir frá leigubílstjóranum Jóni Gunnari Scheving sem hefur lifað tvöföldu lífi árum saman, á tvær konur og börn með báðum. Þegar börnin hans kynnast á netinu færist heldur betur fjör í leikinn og inn í fléttuna flækist leigjandinn Steingrímur og skapillur faðir hans.