19/04/2024

Leifur óheppni í Árnesi

Það verður nóg að gerast á Ströndum um verslunarmannahelgina. Að venju verður ekta sveitaball í Árnesi í Trékyllisvík á föstudagskvöldið með BG og Margréti, en á laugardagskvöldið 5. ágúst mun hinn dularfulli diskótekari DJ Leif the Unlucky standa fyrir heljarmiklu dansiballi. Leif sérhæfir sig í partýslögurum sem hentar fólki á öllum aldri, en hann er í raun Benedikt Þorgeirsson frá Árnesi 2 í Trékyllisvík þannig að hann ætti að þekkja umhverfið og dansþarfir fólksins sem mætir á staðinn.

Benedikt stóð fyrir álíka dansleik í félagsheimilinu í fyrsta skipti í fyrra og þótti hann takast með eindæmum vel. Það er því ljóst að dansfíklar og gleðifólk ættu að geta skemmt sér vel í Trékyllisvík um verslunarmannahelgina. Húsið opnar 22:00 og verður leikið fram eftir nóttu. Aðgangseyrir er 1500.-