23/04/2024

Landshlutakeppni Söngkeppni Samfés á Hólmavík

Föstudaginn 9. febrúar, klukkan 20:00, fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík úrslitakeppni í Vestfjarðarriðli söngkeppni Samfés. Þar munu 10 söngatriði frá Hólmavík, Ísafirði, Bolungarvík og Þingeyri keppa um að komast í lokakeppni sem fram fer í Laugardagshöllinni, laugardaginn 3. mars. Tvö atriði verði valin um kvöldið af fjögurra manna dómnefnd til að keppa í lokakeppninni. Aðgangseyrir er 500 krónur fyrir 1.-10. bekk, en 1000 krónur fyrir 16 ára og eldri. Frítt fyrir börn yngri en 5 ára. Sjoppa félagsmiðstöðvarinnar verður á staðnum.

Það eru forstöðumaður Ozon og unglingarnir í félagsmiðstöðinni sem sjá um framkvæmd og skipulagningu keppninnar sem er orðinn einn stærsti viðburður fyrir unglinga á Vestfjörðum. Styrktaraðilar keppninnar eru Tónabúðin, Nói Síríus, Penninn, Café Riis, Strandabyggð, JPV útgáfa, Staðarskáli og Menningarmálanefnd Strandabyggðar.

Í fréttatilkynningu frá Ozon eru allir boðnir hjartanlega velkomnir og hvattir til að taka þátt í skemmtilegri stemmingu. Að keppni lokinni verður dansleikur fyrir 7.-10. bekk. Þar koma fram hljómsveitirnar Xenofobia frá Ísafirði, Fire frá Hólmavík og aðalhljómsveit kvöldsins sem er Lady Madonna frá Reykjavík. Miðaverð á dansleikinn er krónur 500.