22/12/2024

Lambakjötið og nútíminn

Ólafur ReykdalAðsend grein: Ólafur Reykdal.
Í þessum pistli verður fjallað lítillega um lambakjöt en tilefnið er upplýsingar um hollustu kjötsins á Landbúnaðarvefnum. Efni þetta hefur vakið athygli og þar sem Sauðfjársetrið er á Ströndum er ekki úr vegi að viðhalda umræðunni á þessum vettvangi. Strandirnar eru líka í hugum flestra sauðfjárræktarhérað.

Ég vinn hjá Matvælarannsóknum Keldnaholti sem er nokkurs konar sameiginleg matvæladeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Iðntæknistofnunar. Fyrrnefnda stofnunin er reyndar að renna inn í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri nú um áramótin. Starfsemin á matvæladeildinni byggist á afmörkuðum verkefnum sem eru mest fjármögnuð með styrkjum frá fyrirtækjum og sjóðum. Verkefnin fjalla um hvaðeina sem tengist matvælum, allt frá frumum í laxi til kjötskrokka.

Ímynd lambakjötsins hefur ekki verið sem skyldi síðustu árin. Lambakjöt hefur marga góða kosti út frá næringarfræði mannsins en segja má að fituinnihaldið hafi dregið athyglina frá kostunum. Á matvæladeildinni kviknaði sú hugmynd að draga saman upplýsingar um hollustuþætti í lambakjöti og hafa þær öllum aðgengilegar til fróðleiks og fyrir þá sem fást við sölu og kynninu á kjötinu. Framleiðnisjóður veitti svo styrk til verkefnisins og hægt var að leggja talsverða vinnu í að kanna fáanlegar heimildir. Afraksturinn var svo gerður aðgengilegur á Landbúnaðarvefnum (www.landbunadur.is) á síðasta ári.

Þegar litið er yfir þau atriði sem voru dregin saman má segja að hollusta lambakjötsins hvíli á mörgum stoðum. Fituhreinsað lambakjöt er fitulítil fæða, rík af gæðapróteinum og ýmsum bætiefnum. Vekja ætti sérstaka athygli á járninu en það getur skort í fæði Íslendinga. Járnið úr kjöti nýtist líkamanum líka sérstaklega vel. Upplýsingar um ýmsar fitusýrur í fitunni hafa vakið einna mesta athygli. Nefna má konjúgeraða línolsýru og ómega-3 fitusýrur. Í ýmsum rannsóknum hefur komið fram að þessar fitusýrur geta haft jákvæð áhrif á heilsu. Það er mjög athyglisvert að þessar fitusýrur skuli finnast í lambakjöti. Þó ber að varast að draga of víðtækar ályktanir en blaðamönnum hættir oft til þess. Lambafitan er samsett úr fjölda fitusýra sem hafa mismunandi áhrif en heildaráhrifin eru það sem skiptir máli.

Kannað var hvort hægt væri að markaðssetja lambakjöt sem markfæði líkt og mjólkuriðnaðurinn gerir með LGG+ og fleiri nýjar vörur. Markfæði er matvæli sem ekki aðeins veitir næringu heldur eflir einnig heilsu fólks. Niðurstaðan var sú að ekki væri enn tímabært að selja lambakjöt sem markfæði. Skýringin er sú að magn hollefnanna var ekki álitið nógu mikið og rannsóknir á áhrifum efnanna á heilsu eru ekki samhljóða. Nýjar upplýsingar koma fram á hverju ári og því stendur til að uppfæra skýrslurnar á Landbúnaðarvefnum síðar á þessu ári. Hollusta lambakjöts mun því á næstunni byggjast á velþekktu næringarefnunum en það er alls ekki slæmur kostur.

Upplýsingarnar sem sagt er frá hér að framan eru að verulegu leyti byggðar á erlendum gögnum. Nokkrar mælingar hafa þó verið gerðar á hollustuþáttum í íslensku lambakjöti og má þá sérstaklega nefna að Íslendingar voru þátttakendur í stóru evrópsku verkefni um lambakjöt. Hins vegar hafa verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir á sauðfjárræktuninni í áratugi, einkum á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Landbúnaðarháskólinn nýi á örugglega eftir að halda merkinu á lofti.

Matvælaframleiðsla hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum eins og í nágrannalöndunum. Framleiðslueiningarnar stækka mikið, meira er flutt inn af matvælum og meira er af tilbúnum matvælum en áður. Strandamenn hafa ekki farið varhluta af breytingum á slátrun. Þess má geta að bráðlega verða kynntar niðurstöður úr athugun á gæðum lambakjötsins út frá umhverfisþáttum. Tími sem fer í flutninga í sláturhús er meðal þessara þátta en það þarf ekki að vera að hann hafi mest áhrif. Upplýsingar verður hægt að finna á Landbúnaðarvefnum.

En hvernig getur sauðfjárframleiðsla á Ströndum best haldið velli? Það er alla vega víst að fólk vill í framtíðinni vita hvaðan kjötið kemur og að það hafi verið framleitt í sátt við náttúruna. Kannski er þetta lykilatriðið. Strandakjöt hlýtur að vera eftirsóknarvert. Fróðlegt er að líta til Austfjarða og líta á árangur bænda þar af sölu lambakjöts frá ákveðnum bæjum. Á heimasíðunni Austurlamb.is eru greinargóðar upplýsingar um þetta framtak og hefur salan farið vaxandi. Yfirbygging er lítil og hvílir kynningin mikið á bændum. Sumir hafa selt kjöt sitt á skömmum tíma og eru stöðug og jöfn gæði lykilatriði. Góð ímynd og hollusta vörunnar skipta líka máli.

Höfundur: Ólafur Reykdal, matvælafræðingur, Reykjavík (olafurr@iti.is).