11/10/2024

Allir á kjörstað!

Jón og RósmundurGrein eftir Jón Jónsson og Rósmund Númason
Síðustu vikur höfum við á V-listanum í Strandabyggð háð kosningabaráttu við J-listann sem hefur haft meirihluta í sveitarstjórn hér síðustu fjögur ár. Sú barátta hefur verið skemmtileg og fróðleg. Hún hefur líka farið vel og prúðmannlega fram og þökkum við J-listanum fyrir það. Á V-listanum okkar er kraftmikið og duglegt fólk, þaulvant félagsstörfum, hugmyndavinnu og verkefnastjórn. Við viljum sjá breytingar á ýmsum sviðum og leggjum sérstaka áherslu á stjórnsýsluna, vinnubrögð og upplýsingaflæði.

Málefnin okkar höfum við kynnt í greinum hér á vefnum strandir.saudfjarsetur.is og einnig í dreifibréfum sem send hafa verið í hús. Við hvetjum ykkur til að skoða þessar greinar og pappíra vel og taka ákvörðun um hvern þið styðjið í kosningunum á grundvelli þess sem þar kemur fram. Í okkar málefnaskrá eru talin upp atriði sem við ætlum okkur að framkvæma, en auðvitað er líka fjölmargt ónefnt sem við viljum gera. Allt miðast það við að bæta og styrkja samfélagið okkar í Strandabyggð. Við vonumst eftir að fá stuðning í kosningunum til að koma þessum málefnum í framkvæmd.

Við þökkum þeim sem mættu á opinn kynningarfund á málefnum V-listans sem var haldinn á Café Riis og einnig þeim sem komu á sameiginlegan fund listanna var haldinn í gær í Félagsheimilinu. Þá vonumst við eftir að sjá sem flesta í kosningakaffinu í Félagsheimilinu sem er á milli kl. 14-17, en listarnir sem bjóða fram standa saman að því. Þar eru allir velkomnir.

Frambjóðendur á V-listanum eru bjartsýnir á framtíð Strandabyggðar og hlakka til að takast á við þau verkefni sem framundan eru í sveitarstjórnarmálum. Hér býr gott og kraftmikið fólk.

Jón Jónsson og Rósmundur Númason,
skipa 1. og 10. sæti V-listans í Strandabyggð og eru umboðsmenn hans.