26/12/2024

Kvóti á greiðslur fyrir refaskott

Mikki refur á leið frá HornströndumNokkurrar óánægju gætir meðal refaveiðimanna í Strandabyggð vegna greiðslna og reglna um vetrarveiði á refum, en samþykkt var á fundi Landbúnaðarnefndar Strandabyggðar á dögum að greiða fyrir vetrarveiðina 2007. Staðfesti sveitarstjórn greiðslurnar með þeim fyrirvara að greitt verði fyrir 10 refaskott að hámarki á hverja grenjaskyttu sem ráðin er hjá sveitarfélaginu. Samtals verði því að hámarki greitt fyrir 60 refaskott, 7.000 kr. á skottið. Einnig verði greiddar 3.000 kr. fyrir öll minkaskott hafi viðkomandi veiðileyfi.

Í Bæjarhreppi eru reglurnar aðrar og meira greitt fyrir refinn. Í samþykkt hreppsnefndarfundar Bæjarhrepps 12. desember 2006 segir: "Hreppsnefnd er sammála um að stuðla að sem mestri veiði á ref og samþykkir að þeir aðilar sem ráðnir eru af sveitarfélaginu til meindýravarna fái greitt kr.15.000,- með virðisaukaskatti fyrir hvert dýr." Ekki er fréttaritara kunnugt um hvaða reglur gilda um vetrarveiði á refum í sveitarfélögum norðan Strandabyggðar.

Á síðasta Fjórðungsþingi Vestfirðinga var stjórn Fjórðungssambandsins falið að skipa vinnuhóp til að gera úttekt á refa- og minkaveiði á Vestfjörðum með það að markmiði að samræma aðgerðir sveitafélaga til að ná tökum á mikilli fjölgun á ref og mink. Jafnframt skoraði Fjórðungsþingið á umhverfisráðuneytið að auka þátttöku ríkisins í kostnaði sem felst í refa- og minkaveiðum.