29/04/2024

Broddanesskóli metinn á 18 milljónir

BroddanesskóliÁ fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í vikunni var tekið fyrir erindi frá Menntamálaráðuneytinu í tengslum við fyrirhugaða sölu sveitarfélagsins á Broddanesskóla. Samþykkti sveitarstjórn samhljóða að fela ráðuneytinu að láta auglýsa skólann til sölu hjá Ríkiskaupum sem mun þá væntanlega leita eftir tilboðum í bygginguna. Jafnframt var tekið fyrir verðmat á skólahúsinu frá Fasteignamiðstöðinni og kemur fram í fundargerðinni að það hljóðar upp á 18 milljónir. 

Broddanesskóli var tekinn í notkun árið 1978 og starfaði til 2004. Hann er hannaður af dr. Magga Jónssyni arkitekt. Í húsinu er 173 fermetra íbúð og tæplega 330 fm. skólahúsnæði samkvæmt landskrá fasteigna. Fasteignamat er samtals rúmar 13 milljónir, en brunabótamat 78,2 milljónir.