10/09/2024

Kryddjurtanámskeið á laugardag

580-frost1

Kryddjurtanámskeið sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða hafði auglýst í Tjarnarlundi á laugardaginn færist til Hólmavíkur og verður kennt í Grunnskólanum. Jafnframt verður skráningarfrestur lengdur fram á laugardagsmorgun, þar sem þegar eru komnir nógu margir til þess að af námskeiðinu verði. Námskeiðið er í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands sem sér um framkvæmdina, en Fræðslumiðstöðin tekur við skráningum og kemur að skipulagningu á ýmsan hátt. Nánari lýsingu má finna hér að neðan:

Námskeið: Kryddjurtir

Ræktun áhugaverðra krydd-, lauk- og matjurta í eigin garði. Námskeiðið er opið öllum áhugasömum matjurtaræktendum. Á námskeiðinu verður fjallað um staðsetningu, mótun og uppbyggingu nytjajurtagarðsins. Farið vandlega í gegnum ræktun einstaka tegunda mat- og kryddjurta bæði algengra sem fágætra. Kennt verður meðal annars hvernig á að rækta mat-, skarlot- og hvítlauk, dill, steinselju,  garðablóðberg (timían), fenniku, garðertur, stilkbeðju og hvernig uppskera megi ferskt salat allt sumarið. Einnig verður fjallað um sáningu, forræktun og gróðursetningu, skiptiræktun og áburðargjöf. Þá verða skoðaðar ýmsar áhugaverðar hliðar á ræktunni eins og nýting blóma bæði í matreiðslu og sem vörn gegn skaðvöldum matjurta. Hvaða geymsluaðferð er best og hvernig nota má uppskeruna í matargerð. Þátttakendur fá nytsamlegar uppskriftir á réttum þar sem uppskeran er í aðalhlutverki. Einnig fer fram verkleg kennsla í sáningu.

Leiðbeinandi: Auður Jónsdóttir
Kennslutími: Laugardaginn 31. mars kl 10-16.
Verð: 13.500.- Athugið að mörg stéttarfélög niðurgreiða tómstundanámskeið.
Skráning á www.frmst.is – í síðasta lagi á laugardagsmorgun.