12/12/2024

Kotbýlið opnað í kvöld

Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði er annar áfangi Galdrasýningar á Ströndum og hefur verið í byggingu og þrótun frá árinu 2001. Unnið hefur verið við verkefnið með hléum, allt eftir efnum hverju sinni. Síðustu vikur hafa galdramenn einbeitt sér að sýningunni í torfhúsinu og Einar K. Guðfinnsson opnar svo sýninguna formlega í kvöld kl. 20:00 og eru allir sem áhuga hafa á verkefninu hjartanlega velkomnir. Hér á eftir birtum við af þessu tilefni nokkrar myndir frá byggingarsögunni. Í húsinu er ætlunin að gestir upplifi bæði forneskju og galdra, um leið og torfbærinn gefur hugmynd um hvernig húsakostur fjölkunnugs almúgamanns á 17. öld gæti hafa litið út. Fjallað er um búgaldra, galdra í heiðni, tröll og vætti, jafnframt því sem bjarnfirskum galdramönnum og þjóðsögum verða gerð góð skil.

Sjálfseignarstofnunin Strandagaldur stendur fyrir framkvæmdinni og uppbyggingunni á Klúku. Formaður Strandagaldurs er Magnús Rafnsson á Bakka í Bjarnarfirði og Sigurður Atlason er framkvæmdastjóri. Hönnuður sýningarinnar er Árni Páll Jóhannsson og Potemkin, en verkfræðingur við verkefnið er Ríkharður Kristjánsson hjá Línuhönnun. Guðjón Kristinsson á Dröngum var hleðslumeistari við húsbygginguna og fjöldi manns hefur lagt hönd á plóg með einum eða öðrum hætti.

Fjárlaganefnd Alþingis hefur stutt uppbygginguna dyggilega og aðrir stærstu styrktaraðilar við torfbæinn á Klúku eru Ferðamálaráð, Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Héraðsnefnd Strandasýslu.

Kotbýli kuklarans í byggingu – ljósmyndir Jón Jónsson og Sigurður Atlason