04/10/2024

Kosið í 79 sveitarstjórnir

Í kosningum til sveitarstjórna í vor verða kosnir stjórnendur í 79 sveitarfélögum, en þeim hefur fækkað töluvert síðasta kjörtímabil eða úr 105. Einkum er það fámennustu sveitarfélögunum sem hefur fækkað, en 30 sveitarfélög (38%) hafa færri en 500 íbúa við kosningar í vor og verða öll fjögur sveitarfélögin á Ströndum í þeim hópi. Meðalstærð þeirra landsvæða sem einstök sveitarfélög ná yfir í vor verður 1.300 ferkílómetrar. Sameinaðir Hólmavíkur- og Broddaneshreppar verða 1808 ferkílómetrar eftir sameiningu, Árneshreppur er 724 ferkílómetrar, Kaldrananeshreppur 387 og Bæjarhreppur 513 ferkílómetrar.


Lítið hefur heyrst um framboðsmál í sveitarfélögum á Ströndum, en þó hefur Framsóknarflokkurinn í Hólmavíkurhreppi auglýst fund í næstu viku þar sem sveitarstjórnarkosningar verða til umræðu. Framsókn er nú með meirihluta í hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps, þrjá fulltrúa af fimm. Frestur til að skila inn listum er til hádegis laugardaginn 6. maí, eins og fram kemur á vefnum www.kosningar.is, en ef engir listar berast er kosið óbundinni kosningu milli einstaklinga.