26/12/2024

Komugjöld barna felld niður, hækkuð á fullorðna

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið með reglugerð að fella niður komugjöld barna yngri en 18 ára á heilsugæslustöðvum og á sjúkrahúsum, en hækka þess í stað komugjöld fullorðinna til heilsugæslulæknis á dagvinnutíma úr 700 í 1000 krónur. Tekur þessi nýja gjaldskrá gildi um áramótin. Fyrir komu og endurkomu á slysa- og bráðamóttöku sjúkrahúsa verður almennt gjald 4.000 krónur. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða hálft gjald. Gjald vegna komu eða endurkomu á göngudeildir spítala vegna þjónustu annarra en lækna verður 2.100 krónur, en elli- og örorkulífeyrisþegar greiða 1.100 krónur.

Þegar sjúkratryggður einstaklingur á aldrinum 18-70 ára hefur samtals greitt 21.000 krónur á sama almanaksári vegna heilbrigðisþjónustu á hann rétt á afsláttarskírteini. Er hér átt við heimsóknir á heilsugæslustöðvar eða til heimilislækna, vitjanir lækna, heimsókir á slysadeild, göngudeildir og bráðamóttöku sjúkrahúsa, heimsóknir til sérfræðilækna utan sjúkrahúsa og til sérfræðilækna á göngudeildir sjúkrahúsa, rannsóknir á rannsóknastofum, geisla- og myndgreiningar og beinþéttnimælingar.

Sama gildir þegar kostnaður vegna barna í sömu fjölskyldu fer yfir sjö þúsund krónur á almanaksárinu. Þá eiga fjölskyldur rétt á afsláttarskírteini vegna barnanna. Þegar lífeyrisþegar hafa greitt 5.200 krónur á sama almanaksári eiga þeir rétt á afsláttarskírteini sem Tryggingastofnun gefur út. Þetta eru ellilífeyrisþega 70 ára og eldri, örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega 67-70 ára, sem nutu örorkulífeyris fram til 67 ára aldurs, og ellilífeyrisþega 60-70 ára sem njóta óskerts ellilífeyris.