15/04/2024

KNH tæpum 100 milljónum undir áætlun

Tilboð voru opnuð í gær í 10 kílómetra kafla Djúpvegar í vestanverðum Ísafirði. Þar er um að ræða útboð á síðasta spottanum sem eftir var að bjóða út, til að bundið slitlag verði komið á milli Hólmavíkur og þéttbýlisstaða í Ísafjarðarsýslum. Verkið nær frá slitlagsenda á Eyrarhlíð að slitlagsenda við Svörtukletta út undir Svansvík í Súðavíkurhreppi. Tvö tilboð bárust í verkið sem á að vera lokið fyrir 1. nóvember 2008 og var KNH með lægsta boð sem var aðeins 67,9% af áætluðum verktakakostnaði. Sama fyrirtæki er einmitt með verkefnið frá Hörtná vestan Mjóarfjarðar að Reykjanesi.

Bjóðandi Tilboð kr. Hlutfall Frávik þús.kr.
Áætlaður verktakakostnaður 306.299.200 100,0 98.421
Vélgrafan ehf og Borgarvirki ehf 276.131.500 90,2 68.254
KNH ehf 207.877.855 67,9 0

Á dögunum, þegar í ljós kom að tilboð í vegagerð um Arnkötludal milli Reykhólahrepps og Steingrímsfjarðar var um það bil 200 milljónum undir áætlun Vegagerðarinnar, sagði Sturla Böðvarsson að eðlilegt væri að leggja fjármagnið í önnur verkefni í grenndinni og nefndi Vestfjarðaveg sérstaklega í því sambandi.

Í því samhengi er rétt að minna á að enn er ekki búið að leggja bundið slitlag á veginn milli þéttbýlisstaðanna Hólmavíkur og Drangsness á Ströndum og ekki er á dagskrá að ljúka því á næstu 4 árum samkvæmt fjögurra ára samgönguáætlun. Þó eru aðeins 33 kílómetrar á milli þessara staða og vegurinn liggur alla leið meðfram sjó og engin sérstök vandræði hamla vegagerð á þessari leið. Mörg ár eru síðan aðrir þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum sem standa nálægt hverjum öðrum voru tengdir saman með bundnu slitlagi.